Minnihlutaflokkarnir og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, lýstu í sameiginlegri yfirlýsingu yfir áhyggjum af „þekkingarleysi“ Heiðu Bjargar á húsnæðismálum vegna orða sem hún lét falla í Vikulokunum á Rás 1. Í þættinum sagði Heiða Björg að þúsund íbúðir væru í byggingu á vegum óhagnaðardrifinna leigufélaga. „Þetta er rangt,“ sagði í yfirlýsingunni minnihlutans og formanns VR.
Heiða Björg svaraði svo fyrir sig á Facebook-síðu sinni í kvöld.
„1. Reykjavíkurborg hefur úthlutað lóðum og greitt stofnframlög með yfir 1000 íbúðum óhagðaradrifinna húsnæðisfélaga. Meðal annars til Bjargs, byggingarfélags launafólks. Að halda öðru fram stangast á við staðreyndir eins og sjá má í meðfylgjandi umsögn fjármálastjóra Reykjavíkurborgar og á meðfylgjandi mynd.
2. Það er beinlínis rangt að byggingarréttargjald standi í vegi fyrir byggingu félagslegs húsnæðis eins og fram kemur einnig í meðfylgjandi umsögn frjármálastjóra Reykjavíkur. Staðreyndin er sú að ekkert sveitarfélag í landinu stendur eins myndarlega að uppbyggingu félagslegs húsnæðis og húsnæðis í samvinnu við verkalýðshreyfinguna og husnæðisfelög sem ekki eru rekin i hagnðarskyni, og Reykjavík gerir. Ef önnur sveitarfélög á höfuðborgasvæðinu kæmu að þessu málum með jafn öflugum hætti og Reykjavík væri hér enginn húsnæðisvandi.
Ávirðingum minnihlutans í borgarstjórn Reykjavíkur er því vísað til föðurhúsanna í einu og öllu,“ segir í færslunni.
Að neðan má sjá færslu Heiðu Bjargar og myndina sem hún vísar í í textanum.