Stjórn Flugfreyjufélags Íslands hefur samþykkt að boða til atkvæðagreiðslu meðal allra félagsmanna sinna um vinnustöðvun félagsmanna hjá flugfélaginu Primera Air Nordic. Allir félagsmenn geta tekið þátt í atkvæðagreiðslunni og er búist við því að niðurstaða verði klár í lok septembermánaðar. Deilan hefur staðið yfir í nokkur ár.
Berglind Hafsteinsdóttir, formaður stjórnar FFÍ, segir samningaviðræður við Primera Air Nordic hafa verið hálfgerðan skrípaleik.
„Það hafa verið haldnir eitthvað um átta fundir hjá ríkissáttasemjara þar sem aðilar flugfélagsins hafa aldrei mætt. Krafa okkar er afar einföld í þessari deilu. Við viljum einfaldlega að gerður verði við flugfreyjur kjarasamningur þar sem ljóst er að flugfélagið starfi hér á landi. Það er ekki óeðlileg krafa að okkar mati,“ segir Berglind. „Nú höfum við óskað eftir því að ríkið komi að borðinu án árangurs og því er þetta lokatilraun okkar til að knýja á um að samið verði við flugfreyjur hjá fyrirtækinu.“
Fyrirtækið telur sig hins vegar ekki vera starfandi á íslenskum markaði, heldur í Riga í Lettlandi. Flugliðar starfa sem verktakar hjá fyrirtækinu sem telur sig aðeins þurfa að greiða laun í samræmi við það sem gengur og gerist í Lettlandi.

