Fjörutíu og einn hefur látið lífið af völdum ebólu í Austur-Kongó í faraldri sem geisar þar. Tugir tilfella hafa greinst og hafa starfsmenn Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) áhyggjur af útbreiðslu faraldursins á átakasvæði.
Sjö heilbrigðisstarfsmenn eru á meðal þeirra 57 tilfella ebólu sem hafa greinst, að sögn WHO. Þrjátíu tilfelli hafa verið staðfest og 27 eru líkleg ebólusmit, að því er segir í frétt CNN-fréttastöðvarinnar.
Faraldurinn geisar í Norður-Kivu-héraði þar sem stríðsástand ríkir. Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóri WHO, segist hafa enn meiri áhyggjur af ástandinu þar eftir að hann heimsótti svæðið á dögunum.
Svæðið er þéttbýlt og miklir fólksflutningar eiga sér stað vegna átakanna. Ofbeldisverk og mannrán eru þar jafnframt tíð.
Fleiri hafa nú smitast í Kivu en gerðu í faraldri sem blossaði upp í Miðbaugshéraði Austur-Kongó í norðvesturhluta landsins fyrr í sumar. Þá greindust 53 tilfelli og 29 manns létu lífið.
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur áhyggjur af ebólafaraldrinum í Austur-Kongó

Tengdar fréttir

Berjast við að aftra útbreiðslu ebóluveiru í Austur-Kongó
Heimamenn í Austur-Kongó eru tortryggnir í garð heilbrigðisstarfsfólks sem berst við útbreiðslu ebólu. Þúsundum skammta af tilraunalyfi hefur verið dreift til íbúa í von um að komast hjá alþjóðlegu neyðarástandi.

33 látnir vegna ebólu í Lýðveldinu Kongó
Ný tilfelli ebólusmits hafa komið upp í austurhluta Lýðveldisins Kongó.

Áhyggjur af nýjum ebólufaraldri
Fjögur smit hafa verið staðfest en talið er að allt að tuttugu gætu hafa látist í faraldrinum nú þegar.