Allt hefur logað í bæjarpólitíkinni í Hafnarfirði vegna nýjustu vendinga í knatthúsamálinu. Eftir að fyrirætlanir um að bærinn byggði nýtt knatthús í Kaplakrika runnu út í sandinn, var samþykkt í bæjarráði að bærinn keypti í staðinn þrjú íþróttamannvirki af FH en félagið notaði kaupverðið, 790 milljónir, til að byggja knatthús. Örfáum dögum síðar voru fyrstu 100 milljónirnar greiddar til félagsins.
Eins og Fréttablaðið hefur greint frá er Hafnarfjörður eigandi að 80 prósenta hlut í einu þeirra húsa sem bærinn hefur samþykkt að kaupa af félaginu, handboltahúsinu svokallaða. Eignarhluti bæjarins er skráður í bækur bæjarins á 92 milljónir og ljóst er að það þarf að flytja þessa eign yfir til FH til að Hafnarfjörður geti keypt hana af félaginu. Af fyrirhuguðum kaupum bæjarins á 55 prósenta hlut í knatthúsunum í fyrra, fyrir 200 milljónir, má draga þá ályktun að bærinn muni kaupa handboltahúsið sem bærinn á að mestu leyti sjálfur á 470 milljónir.
Fulltrúar meirihlutans hafa margítrekað að bæjarsjóður muni ekki bera frekari kostnað af yfirfærslu þessa eignarhluta til FH. Á húsinu hvíla hins vegar 870 milljónir samkvæmt veðbókarvottorði og ekki er ljóst hvert þessi veð verða flutt. En húsin á að afhenda bænum skuldlaus. Á hinum húsunum tveimur sem bærinn kaupir hvíla samtals 238 milljónir.

Jón Rúnar segir samkomulag um kaup húsanna fyrir 790 milljónir aðeins fyrsta skrefið til að koma málinu af stað. Aðalmálið fyrir FH sé frágangur eignaskiptingarinnar.
„FH á, fyrir utan knatthúsin, verulega fjármuni í þessum eignum. En til að klára málið og koma þessu máli öllu af stað eru þessar eignir sérteknar þarna fram,“ segir Jón Rúnar og vísar til rammasamkomulagsins og húsanna sem bærinn mun kaupa. „Síðan, þegar það kemur loks endanleg niðurstaða í eignaskiptinguna alla saman, þá loksins er hægt að skilgreina þetta. Og miðað við þessa upphæð sem við tókum að okkur að byggja knatthúsið fyrir; þessar 790 milljónir, þá eru það væntingar okkar miðað við okkar útreikninga að við eigum hátt í tvöfalt þessa upphæð sem um er að ræða, fyrir utan fótboltahúsin tvö,“ segir Jón Rúnar.
Búast má við að deilur um málið haldi áfram í bæjarstjórn enda margt enn óljóst. Enn er ekki vitað hvert endanlegt verðmat eignanna verður, hvaða kostnað bæjarfélagið mun bera af því að losna undan eignarhaldi handboltahússins, hvert áhvílandi skuldir á hinum nýkeyptu húsum verða fluttar og hvernig FH mun í kjölfarið standa undir þungri skuldastöðu sinni.