Heimir Ríkharðsson, þjálfari liðsins, var svekktur þegar Fréttablaðið ræddi við hann eftir leikinn. Hann vildi þó heldur einblína á þá fjölmörgu jákvæðu punkta sem hægt væri að taka úr mótinu öllu en tapið í úrslitaleiknum. Sem keppnismaður væri hann að sjálfsögðu súr með tapið, en þegar heildarmyndin væri skoðuð ættu menn að fara ánægðir heim.
„Við byrjuðum þennan leik illa, en sýndum svo karakter að koma okkur inn í leikinn. Við gerðum hins vegar of mörk tæknimistök í upphafi seinni hálfleiks og það var enginn sem náði að taka af skarið og leiða aðra endurkomu. Því fór sem fór, en ég er ofboðslega sáttur við spilamennsku leikmanna í þessum leik og frammistöðuna á mótinu í heild sinni,“ sagði Heimir um úrslitaleikinn.

„Mér finnst margt líkt með þessu liði og því sem varð Evrópumeistari í þessum aldursflokki undir minni stjórn árið 2003. Þar voru leikmenn á borð við Arnór Atlason, Ásgeir Örn Hallgrímsson og Björgvin Pál Gústavsson sem síðan voru burðarásar í A-landsliðinu í fjölmörg ár. Nú verða þessir leikmenn sem við eigum núna að vera þolinmóðir og leggja hart að sér. Það eru margir leikmenn hér sem hafa alla burði til þess að ná langt, þeir eru hins vegar ungir og eiga fjölmargt eftir ólært. Þeir eiga að mínu mati að halda kyrru fyrir heima næstu misserin og öðlast meiri reynslu með því að leika í Olís-deildinni,“ sagði Heimir um framhaldið hjá lærisveinum sínum.