Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, hefur varið þá ákvörðun sína að fara í aukaflug til fundar á Kyrrahafseyjunni Nauru en hún kemur til fundarins degi síðar en aðstoðarforsætisráðherrann svo hún þurfi ekki að vera of lengi í burtu frá 11 vikna gamalli dóttur sinni.
Fundurinn stendur í þrjá daga og segir Ardern að hún hafi ekki viljað sleppa honum alveg. Það hafi annað hvort verið það eða að fara degi síðar því dóttir hennar er of ung til þess að fá þær bólusetningar sem þarf til að fara til Nauru. Ardern er enn með dóttur sína á brjósti og þótti henni of langur tími að fara frá henni í þrjá heila daga.
Ýmsum þykir þó aukaflugið, sem borgað er af ríkissjóði, helst til of dýrt en kostnaðurinn við þessa ferð ráðherrans er á milli 50 þúsund og 100 þúsund nýsjálenskra dollara, eða sem samsvarar á milli 3,5 milljóna íslenskra króna og 7 milljóna.
Ardern var spurð að því í fjölmiðlum hvort henni þætti þessi ferð góð meðferð á skattfé. Svaraði hún því til að hún hefði tekið ákvörðun um að fara að vel ígrunduðu máli.
„Hinn kosturinn var að fara alls ekki en þegar horft er til mikilvægis sambands okkar við eyjarnar á Kyrrahafi þá fannst mér það ekki vera möguleiki,“ sagði Ardern.
Gagnrýna Ardern út af dýru flugi sem hún tekur vegna dóttur sinnar

Tengdar fréttir

Jacinda Ardern snýr aftur úr fæðingarorlofi
Forsætisráðherra Nýja-Sjálands hefur snúið aftur til vinnu, sex vikum eftir fæðingu frumburðar síns.

Forsætisráðherrann eignaðist stúlku
Forsætisráðherra Nýja-Sjálands, Jacinda Ardern, eignaðist í morgun sitt fyrsta barn.

Ardern kemur í veg fyrir launahækkanir þingmanna
Ráðherrann sagði að launahækkarnir þingmanna væru úr takt við hækkanir annarra landsmanna og væru ekki til þess fallnar til að koma á sátt í landinu.