Björgvin Jónsson hæstaréttarlögmaður og verjandi Thomasar segir í samtali við Vísi að þinghaldið á morgun sé undirbúningur fyrir aðalmeðferð málsins. Dagsetning aðalmeðferðar hefur þó ekki verið ákveðin.
Sjá einnig: Segir útreikninga lögreglu ekki virka áreiðanlega á sig
Björgvin segir að í Landsrétti á morgun verði m.a. kortlagt hvaða vitni úr héraðsdómi muni þurfa að koma fyrir við aðalmeðferðina og hvaða skýrslur verði teknar fyrir. Bæði saksóknara og verjanda verður gefinn kostur á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri í þeim efnum. Fyrst var gert ráð fyrir að þinghaldið færi fram 11. september en Björgvin fór fram á frest þar sem undirbúningstími hafi verið of knappur.
Thomas mætir ekki
Þá hefur verið greint frá nýjum vendingum í máli Thomasar frá því að dómur yfir honum var kveðinn upp í héraði. Þar á meðal er matsskýrsla dómskvadds haffræðings um það hvar líkama Birnu var komið fyrir í sjó.Aðspurður gerir Björgvin þó ekki ráð fyrir að hann leggi fram gögn við undirbúningsþinghaldið á morgun en fram hefur komið að bæði sækjandi og verjandi hygðust leggja fram viðbótargögn í málinu. Björgvin segist ekki vita hvort gagnaframlagning muni fara fram af hálfu ákæruvaldsins.
Thomas Møller Olsen verður ekki viðstaddur undirbúningsþinghaldið í Landsrétti á morgun, að sögn Björgvins. Thomas hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan hann var handtekinn í janúar árið 2017.