Vísir náði tali af Bjössa nú fyrir stundu og var hann býsna kátur með fenginn, að vonum.
„Við settum í einn í morgun sem er helmingi stærri. Vorum með hann á í tvo tíma þegar slitnaði. Við vorum hálftíma að draga þennan um borð.“
Mikil átök við að þreyta fiskinn og draga um borð
Bjössi lýsir veiðunum þannig að þeir fara út með sjóstangveiðibát en áður en þeir fara út veiða þeir makríl sem svo er notaður lifandi í beitu.„Sniðugt að veiða beituna sjálfur. Makríllinn er svo geymdur í kari um borð. Við erum með þrjár stangir úti og svo skiptast menn á að draga þegar bítur á, því það er enginn einn sem getur þreytt svona kvikindi. Þetta eru svo mikil átök,“ segir Bjössi sem er vel að manni. Þannig að eitthvað hefur kostað að draga fiskinn um borð.

Bjössi hefur stundað stangveiði áratugum saman og farið um allan heim til að stunda þá iðju; Rússlands, Skotlands, Argentínu … aðallega til að elta laxinn. „Mig hefur alltaf langað til að fara í þetta og lét loks verða af því. Við sjáum ekki eftir því.“
Hann segir þetta tíu sinnum stærri fisk en þann stærsta sem hann hefur fram til þessa landað. „Ég hef fengið 40 pundara í Rússlandi. Já, þar eru þeir stórir. Það var reyndar stærsti lax sem veiddist þar það árið sem var 2004 eða 2005.“
Rándýr fiskur
Bjössi og félagar eru að halda til veiða í dag, fara svo í golf á morgun og eru væntanlegir til landsins aðfaranótt föstudags. Hann lætur vel af veiðum í Kanada. „Ég held að það fáist ekki svona fiskar annars staðar. Þetta er fiskur sem ég gæti selt fyrir 30 þúsund dollara. Happadráttur. Við megum reyndar ekki hirða hann, það er báturinn. Við komum bara blankir heim. Við erum að borga 2000 dollara fyrir bátinn á dag, 160 þúsund kall ef deilist á fjóra. Ekkert dýrt í samanburði við laxveiði heima. Þegar flugið er orðið ódýrt þá er þetta í lagi.“Bjössi segir að svona fengur teljist mikill happadráttur enda hægt að fá mikið fé fyrir hann, svo mikið að menn tíma ekki að stoppa hann upp. „En, jú, hann færi vel á vegg.“