Sýrlenskir ríkisfjölmiðlar fullyrða að Ísraelsmenn hafi skotið eldflaugum á alþjóðaflugvöllinn í Damaskus í kvöld en sýrlenskar loftvarnir hafi náð að skjóta sumar þeirra niður. Sprengingarnar eru sagðar hafa ómað um höfuðborgina.
AP-fréttastofan hefur eftir Sýrlensku mannréttindavaktinni, samtökum sem fylgjast með stríðsrekstrinum í Sýrlandi, að árás Ísraela hafi beinst að vopnabúri fyrir íranskar hersveitir eða Hezbollah-samtökin.
Talið er að Ísraelar hafi áður staðið fyrir loftárásum á hópana tvo sem berjast með stjórnarher Bashars al-Assad forseta Sýrlands en þeir hafa sjaldan viðurkennt það. Stjórnvöld í Ísrael hafa þó sagst myndu grípa til hernaðaraðgerða til þess að stöðva vopnaflutninga til óvina sinna.
Segja Ísraela hafa skotið eldflaugum að flugvellinum í Damaskus
Kjartan Kjartansson skrifar
