Körfubolti

Kamerúnskur prins uppgvötaði stóra manninn sem er að breyta körfuboltanum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Joel Embiid er skemmtilegur fír.
Joel Embiid er skemmtilegur fír. vísir/getty
Joel Embiid, miðherji Philadelphia 76ers í NBA-deildinni í körfubolta, er smám saman að breyta því hvernig menn horfa á íþróttina en þessi stóri strákur getur gert svo margt annað en bara að standa undir körfunni og leggja boltann ofan í.

Embiid er einn besti stóri maður sem sést hefur í NBA-deildinni í langan tíma og svo sannarlega einn sá fjölhæfasti en hann byrjaði ekki að æfa körfubolta fyrr en hann var 16 ára gamall og það í heimalandi sínu Kamerún.

Embiid æfði blak til 16 ára aldurs og var á leiðinni til Frakklands að taka blakferilinn á næsta þrep þegar að körfuboltinn tók við. Hann fór í körfuboltabúðir Luc Mbah a Moute og þar hófst mögnuð ferð hans í NBA-deildina.

Moute hefur spilað um árabil í NBA-deildinni en hann er frá Yaoundé í Kamerún eins og Embiid. Hann er reyndar sonur höfðingja í þorpi rétt fyrir utan bæinn og kallast því prins í heimalandinu. Ekki amalegur titill það.

Eftir að Mbah a Moute komst sjálfur í NBA-deildina vildi hann hjálpa fleiri samlöndum sínum að komast til Bandaríkjanna á skólastyrk í menntaskólum og háskólum. Hann setti upp árlegar sumarbúðir og árið 2011 rakst hann á slána sem réð lítið við hreyfingar sínar.

Hann sá þó eitthvað í stráknum og sendi hann til Bandaríkjanna. Þetta var auðvitað Embiid en eftir stutta dvöl í Kansas-háskólanum fór hann í NBA-deildina og er orðin algjör stjarna.

VICE Sports gerði skemmtilega 22 mínútna heimildamynd um körfuboltann í Kamerún í tengingu við þessa skemmtilegu sögu Embiid en hana má sjá hér að neðan.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×