Norðanáttinni fylgir talsverð úrkoma á Norður og Austurlandi, yfirleitt rigningu við sjóinn, en lengst af slyddu eða snjókomu ofan 100-200 metra hæðarlínu. Veðurfræðingur tekur þó fram að hæðarmörk rigningar og snjókomu verða breytileg í dag og á morgun. Þurrviðri er hins vegar í kortunum á sunnanverðu landinu.
Á föstudagskvöld fer styrkur norðanáttarinnar að dvína og úrkoman að minnka og útlit er fyrir rólegt en frekar kalt veður um helgina. Eftir helgi er útlit fyrir að hann snúist í sunnanátt með rigningu sunnan- og vestanlands og á sama tíma hlýnar fyrir norðan og austan.
„Af ofantöldum veðurlýsingum má vera ljóst að haustið er svo sannarlega komið,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.
Þá er gul viðvörun í gildi á Vestfjörðum, Ströndum og Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra, Austurlandi að Glettingi og Miðhálendi.
Veðurhorfur á landinu næstu daga:
Á föstudag:
Norðan 13-18 m/s, en 18-23 í vindstrengjum suðaustanlands. Talsverð úrkoma á Norður- og Austurlandi, rigning við sjávarmál, en slydda eða snjókoma ofan 200-300 metra hæðarlínu. Þurrt á Suður- og Vesturlandi. Fer að draga úr vindi og úrkomu um kvöldið. Hiti frá 1 stigi í innsveitum fyrir norðan, upp í 9 stig syðst.
Á laugardag:
Minnkandi norðvestanátt og léttir víða til, en él fram yfir hádegi norðaustan- og austanlands. Hiti 0 til 7 stig, mildast á Suðurlandi.
Á sunnudag:
Hæg vestlæg átt og víða bjart veður, en skýjað og þurrt að kalla með vesturströndinni. Hiti 2 til 7 stig að deginum, en nálægt frostmarki um landið norðaustanvert.
Á mánudag og þriðjudag:
Suðlæg átt með rigningu og súld sunnan- og vestanlands, en þurrt að mestu norðaustantil. Hiti 6 til 13 stig, hlýjast um landið norðaustanvert.
Á miðvikudag:
Útlit fyrir suðvestan- og vestanátt með skúrum, en léttskýjað austanlands. Hiti 3 til 9 stig.