Sjaldgæfur hvítur tígur réðst að dýragarðsverði og varð honum að bana í japönsku borginni Kagoshima. Vinnufélagar hans komu að manninum í tígrabúrinu og blæddi mikið úr hálsi hans. Hann var fluttur á sjúkrahús þar sem hann var úrskurðaður látinn.
Strax beindist grunur að einu dýranna, en alls eru fjórir hvítir tígrar í garðinum. Lögregla rannsakar nú aðbúnað og öryggismál í garðinum.
Í fyrra urðu að minnsta kosti tvær árásir tígrisdýra á dýragarðsverði í heiminum, önnur í Bretlandi og hin í Rússlandi.
Hvítur tígur drap starfsmann í dýragarði
Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
