Erlent

Átta látnir á einum degi vegna snjó­flóða

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Leitað að særðum í Pongau.
Leitað að særðum í Pongau. Bergrettung Pongau

Eftir linnulausa ofankomu í austurrísku Ölpunum síðustu vikuna féll í gær fjöldi snjóflóða og hafa átta manns látið þar lífið. Síðdegis í gær hreif snjóflóð þrjá tékkneska skíðamenn í Murtal-héraði í Steiermark. Þeir fundust síðar látnir.

Samkvæmt umfjöllun austurrískra miðla voru hinir látnu hluti af hópi sjö ferðamanna frá Tékklandi sem voru á skíðum þegar snjóflóð féll á þá. Þrír hrifust með flóðinu og grófust algjörlega í fönn.

„Viðbragðsaðilum tókst að finna fórnarlömbin og grafa þau að hluta til úr fönninni. Þrátt fyrir hraðvirkt björgunarstarf fundust þeir látnir,“ segir í tilkynningu frá lögreglunni í Steiermark.

Fyrr í gær féll annað snjóflóð í Pongau í nágrenni Salzborgar. Hópur af skíðaköppum urðu fyrir snjóflóðinu og fjórir þeirra létust og annar slasaðist alvarlega.

Gerhard Kremser, formaður björgunarsveitarinnar í Pongau, sagði að skýrar viðvaranir hefðu verið gefnar út um snjóflóðahættu á svæðinu þegar banvænt slysið varð.

„Þessi harmleikur sýnir fram á hve alvarleg snjóflóðastaðan er,“ sagði hann.

Á þriðjudaginn lést þrettán ára drengur frá Tékklandi á skíðasvæðinu í Bad Gastein og á sunnudaginn fyrir viku lést maður á sextugsaldri í Weerberg í Tirol.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×