Skoðun

Guð blessi Vestfirði

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Það er í tísku að tala um hrunið nú þegar tíu ár eru liðin frá hörmunginni. Ég ætla að tolla í tískunni en get þó ekki freistað þess, um leið og ég harma hlut þeirra sem illa fóru út úr hruninu, að benda á að í raun eru það forréttindi að geta talað um hrunið í eintölu því til eru samfélög sem þekkja lítið annað en hvert hrunið á fætur öðru. Eitt þessara samfélaga er að finna á sunnanverðum Vestfjörðum og það sem ýtir því fram af bjargbrúninni með reglulegu millibili eru ekki útrásarvíkingar, bankabólur, jarðskjálftar, eldgos eða Lehmanbræður heldur pólitískar ákvarðanir í Reykjavík. Nú er svo komið að blikur eru á lofti einn ganginn enn.

Laxeldi á sjó er ekki og á ekki að vera óumdeilt frekar en starfsemi banka sem getur orðið glæfraleg, álframleiðsla eða rekstur fimm stjörnu hótela í Reykjavík sem síðan kallar á þjónustu sem misbýður siðferði margra. En þetta er vandinn við að byggja samfélag, oftast verður maður að láta reyna á umburðarlyndi upp að vissu marki. Og ekki fæ ég séð að laxeldi þar vestra sé komið út fyrir skynsamleg mörk. Það sem mér finnst sorglegast í þessu er að nú virðist tækifærið farið fyrir náttúruverndarsinna, landeigendur og eldismenn að leggja frekari drög að samfélagsgreind sinni. Annað sorgarefni er að Vestfirðingar skuli hafa yfir sér yfirvald sem ALDREI getur hlíft þeim við þessum hrunum.

En hvernig sem fer verða árnar þarna áfram, þar sem ég veiddi lax á bernskudögum með góðum mönnum. Reyndar fannst ekki í þeim vestfirskur sporður heldur fiskur sem menn höfðu komið með í poka frá Noregi. Hvaðan ætti líka gott að koma? Frá Reykjavík?




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×