Innlent

Strandaglópar Primera gramir eftir gjaldþrotið

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Margir áttu miða í eina af vélum Primera á milli Bretlandseyja og Norður-Ameríku en komast ekki leiðar sinnar vegna gjaldþrotsins. Fréttablaðið/Haraldur
Margir áttu miða í eina af vélum Primera á milli Bretlandseyja og Norður-Ameríku en komast ekki leiðar sinnar vegna gjaldþrotsins. Fréttablaðið/Haraldur
Fjölmargir sem áttu flugmiða á milli Bretlands og Norður-Ameríku með Primera Air hafa lýst yfir óánægju sinni á samfélagsmiðlum og í viðtölum við erlenda fjölmiðla vegna gjaldþrots flugfélagsins.

Strandaglópar kvarta yfir skorti á upplýsingum fyrir og eftir að tilkynnt var um gjaldþrot á mánudaginn.

Hin kanadíska Angela Dorau sagði við BBC að hún væri föst í París með eiginmanni sínum. Þau væru á ódýru vegahóteli að reyna að galdra fram pening fyrir farinu heim. Annar viðmælandi BBC, neminn Pavithra Priyadarshini, sagðist fyrst hafa frétt að flugi hennar til Lundúna hefði verið aflýst þegar hún kom á flugvöllinn.

Töluverða reiði hefur einnig mátt greina á Twitter. Bretinn Larry Litzgerald kvartaði þar yfir því að hann hafi verið í röð inn í vélina þegar fluginu var aflýst og sagði einfaldlega „drepið mig“. Hin breska Lindsay Learns sagðist hafa lent í sömu stöðu en Nikki Luxford sagðist miður sín. Flugfélagið hefði eyðilagt draumafríið.

Eigandi Primera Air og forstjóri er Andri Már Ingólfsson en flugfélagið er hins vegar skráð í Danmörku og með höfuðstöðvar þar. Danskir miðlar hafa sýnt málinu mikinn áhuga.

DR fjallaði til að mynda um að fyrirtækið Flyhjælp, sem sérhæfir sig í að framfylgja bótakröfum farþega flugfélaga, hafi sýslað með kröfur rúmlega 4.000 farþega Primera Air sem muni líklega aldrei fá bæturnar.

Ferðaskrifstofan Heimsferðir, systurfélag Primera Air, flytur þá farþega til Íslands sem Primera Air átti að flytja, hafi viðkomandi keypt miða sinn í gegnum ferðaskrifstofuna. Í samtali við Ríkisútvarpið sagði Tómas Gestsson framkvæmdastjóri að vel hafi tekist að leysa úr málum þeirra hundrað farþega sem þáðu boð ferðaskrifstofunnar. Fimmtíu komu til landsins frá Alicante í gær og jafnmargir frá Tenerife í dag.

Hlutabréf í Arion banka lækkuðu um 5,76 prósent í gær. Má rekja lækkunina til þess að bankinn upplýsti að hann muni tapa allt að 1,8 milljörðum króna á falli Primera Air. Flugfélagið var þó ekki nafngreint í tilkynningu bankans.

Hvorki náðist í Andra Má, forstjóra Primera Air, né Hrafn Þorgeirsson framkvæmdastjóra við vinnslu fréttarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×