Erlent

Katalónar þjarma að Sánchez

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Quim Torra hélt stefnuræðu sína þegar katalónska þingið kom saman eftir sumarfrí í gær.
Quim Torra hélt stefnuræðu sína þegar katalónska þingið kom saman eftir sumarfrí í gær. vísir/epa
Quim Torra, forseti héraðsstjórnar Katalóníu, hélt stefnuræðu á héraðsþinginu í gær þar sem hann krafðist þess að spænski forsætisráðherrann Pedro Sánchez samþykkti að haldin yrði atkvæðagreiðsla í héraðinu um sjálfsákvörðunarrétt þess til að lýsa yfir sjálfstæði. Torra setti Sánchez frest fram í nóvember. Hann sagði að ef Sánchez féllist ekki á kröfuna gætu sjálfstæðissinnar ekki lofað því lengur að styðja ríkisstjórn hans. Tveir katalónskir flokkar aðskilnaðarsinna á spænska þinginu verja Sósíalistaflokk Sánchez vantrausti, Esquerra og PDeCAT. Án þeirra er meirihluti á móti ríkisstjórninni.

„Það er nauðsynlegt fyrir Sánchez­ að skuldbinda sig til þessa. Við höfum verið þolinmóðari í garð ríkisstjórnarinnar en almenningur hefur krafið okkur um. Fólk úr okkar röðum er pólitískir fangar, í útlegð og þúsundir hafa verið sóttar til saka,“ sagði Torra og bætti því við að þolinmæði aðskilnaðarsinna væri senn á þrotum.

Ekki eru þó allir Katalónar á sama máli og Torra. Xavier Garcia Albiol, leiðtogi Lýðflokksins (PP) í Katalóníu, kallaði í gær eftir afsögn forsetans. Ástæðuna sagði hann vera mótmæli sem áttu sér stað fyrir utan þinghúsið á mánudagskvöld. Mótmælendur lentu þá í átökum við katalónsku lögregluna. Torra hafði sagt þeim að setja þrýsting á stjórn sína í ræðu sem hann flutti sama dag. Á mánudag var ár liðið frá atkvæðagreiðslu um sjálfstæði Katalóníu sem dró dilk á eftir sér og leiddi meðal annars til þess að spænska þingið var leyst upp og héraðsstjórnin sótt til saka. Þeir Katalónar sem mættu á kjörstað sögðu langflestir já við sjálfstæði en kjörsókn var tæpur helmingur.

Albiol sagði að Lýðflokkurinn myndi skriflega fara fram á afsögn Torra í vikunni. Hann kallaði jafnframt eftir því að Sánchez sliti öll samskipti við héraðsstjórnina.

Borgaraflokkurinn, stærsti stjórnarandstöðuflokkur Katalóníu, hefur kallað eftir því að siðanefnd þingsins fordæmi „umsátrið“ um þinghúsið. Formaður flokksins á landsvísu, Albert Rivera, sagði svo að Torra hefði kynt undir starfsemi „ofstækismanna“ og kallað eftir því að ráðist væri gegn ríkinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×