Viðskipti innlent

Lyf og heilsa þarf að greiða Apóteki Vesturlands bætur vegna samkeppnisbrota

Kjartan Kjartansson skrifar
Lyf og heilsa var talin hafa brotið lög með viðbrögðum sínum við innkomu Apóteks Vesturlands á markaðinn á Akranesi.
Lyf og heilsa var talin hafa brotið lög með viðbrögðum sínum við innkomu Apóteks Vesturlands á markaðinn á Akranesi. Vísir/GVA
Hæstiréttur dæmdi lyfjaverslunina Lyf og heilsu til þess að greiða Apóteki Vesturlands fjóra og hálfa milljón króna í bætur vegna tjóns af völdum samkeppnisbrota fyrrnefnda fyrirtækisins. Tveir dómarar skiluðu sératkvæði og vildu dæma Lyfjum og heilsu í vil.

Rót skaðabótamálsins má rekja til þess að áfrýjunarnefnd samkeppnismála úrskurðaði árið 2010 að Lyf og heilsa hefði brotið gegn samkeppnislögum með því að hafa nýtt sér markaðsráðandi stöðu sína til að hindra innkomu Apóteks Vesturlands á lyfsölumarkað á Akranesi. Það hafi fyrirtækið gert með útgáfu vildarkorta og með svonefndum baráttuafsláttum. Hæstiréttur staðfesti úrskurðinn árið 2012.

Í kjölfarið krafði Apótek Vesturlands Lyf og heilsu um rúmar átján milljónir króna í skaðabætur vegna tjóns sem það hefði orðið fyrir vegna samkeppnisbrotanna. Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði Lyf og heilsu af kröfunni í janúar í fyrra.

Sá dómur byggði á yfirmatsgerð sem gerð var í málinu sem komst að þeirri ályktun að Apótek Vesturlands hefði ekki orðið fyrir neinu tapi vegna brotanna. Undirmatsgerðin hafði gert ráð fyrir tilteknu tjóni.

Hæstiréttur komst hins vegar að þeirri niðurstöðu í dag að gerólíkar forsendur hefðu legið til grundvallar niðurstöðum undir- og yfirmatsgerðar. Taldi dómurinn að ekki væri hægt að byggja á niðurstöðu yfirmatsgerðarinnar um áhrif afsláttanna sem Lyf og heilsa veitti. Féllst rétturinn hins vegar á niðurstöðu Héraðsdóms um að vildarklúbburinn hefði ekki haft áhrif á Apótek Vesturlands.

Auk bótanna þarf Lyf og heilsa að greiða Apóteki Vesturlands átta milljónir króna í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Þorgeir Örlygsson og Viðar Már Matthíasson skiluðu sératkvæði í málinu. Töldu þeir að Apótek Vesturlands hefði ekki sýnt fram á fjártjón vegna brota Lyfja og heilsu. Vildu þeir staðfesta sýknudóm Héraðsdóms Reykjavíkur og dæma Apótek Vesturlands til að greiða málskostnað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×