Erlent

Trudeau fær sér ekki smók

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Justin Trudeau
Justin Trudeau
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, sagðist í gær ekki ætla að reykja kannabis þótt það væri orðið löglegt í ríkinu. „Ég drekk ekki einu sinni kaffi. Ég hef engin plön um að neyta kannabisefna,“ sagði ráðherrann á blaðamannafundi.

Nærri aldargömul bannstefna leið undir lok í Kanada í gær og varð löglegt að selja, rækta og neyta kannabiss í landinu á meðan sérstakar reglugerðir voru settar um athæfið. Reglurnar eru mismunandi eftir fylkjum en alls staðar er athæfið þó löglegt. Langar raðir mynduðust fyrir utan nýja útsölustaði víðs vegar um landið.

„Ágóðinn fer úr höndum glæpamanna. Við verndum börnin okkar. Í dag verður #kannabis löglegt og regluvætt um allt Kanada,“ tísti forsætisráðherrann svo.

Trudeau hefur þó áður viðurkennt að hafa neytt kannabisefna. Árið 2013 sagðist hann til að mynda hafa gert það fimm eða sex sinnum yfir ævina.




Tengdar fréttir

Kannabis orðið löglegt í Kanada

Kannabis varð löglegt í Kanada á miðnætti í nótt að þeirra tíma og þar með varð landið annað ríkið í heiminum sem lögleiðir efnið að fullu, á eftir Úrúgvæ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×