Hvalur hf. sendi tæplega fimmtán hundruð tonn af hvalaafurðum með frystiskipi frá Hafnarfirði á laugardaginn, áleiðis til Japans og á skipið að sigla með farminn norðausturleiðina, um Norður Íshafið, að því er Morgunblaðið greinir frá.
Hvalur hefur áður flutt hvalaafurðir þessa leið, sem er töluvert styttri, en á sínum tíma hótuðu umhverfisverndarsamtök sums staðar á hinni hefðbundnu siglingaleið, að koma í veg fyrir að skip á vegum Hvals fengju afgreiðslu eins og olíu og vistir, í erlendum höfnum á leiðinni.
Blaðið hefur eftir Kristjáni Loftssyni forstjóra Hvals að Japanir hafi nú tekið upp alþjóðlegt matskerfi á afurðirnar, sem eigi að liðka fyrir viðskiptunum.

