Erlent

Brunson kominn aftur til Bandaríkjanna

Samúel Karl Ólason skrifar
Brunson biður fyrir Trump í Hvíta húsinu.
Brunson biður fyrir Trump í Hvíta húsinu. AP/Jacquelyn Martin
Presturinn Andrew Brunson er nú kominn heim til Bandaríkjanna eftir að hafa varið tæpur tveimur árum í haldi Tyrkja. Hann var handtekinn og sakaður um njósnir og stuðning við hryðjuverkasamtök. Hann var svo sakfelldur í gær og dæmdur í þriggja ára fangelsi. Brunson var hins vegar sleppt strax og sagði dómarinn að ástæðan væri sú að hann hefði þegar verið svo lengi í haldi.

Við komuna til Bandaríkjanna í dag fór Brunson á fund Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, í Hvíta húsinu. Hann þakkaði Trump fyrir og sagði forsetann hafa barist fyrir því að ná honum úr haldi.

Yfirvöld Tyrklands hafa verið sökuð um að búa til ákærurnar gegn Brunson og um að hafa í raun haldið honum í gíslingu.

Tyrkir höfðu lýst því yfir að þeir myndu skipta á Brunson og klerkinum Fethullah Gulen, sem er í útlegð í Bandaríkjunum. Tyrkir hafa sakað Gulen um að skipuleggja valdarán í Tyrklandi fyrir tveimur árum og hafa farið fram á að hann verði framseldur. Bandaríkin hafa hins vegar ekki viljað gera það án sannanna.

Trump sagði ríkisstjórn sína hafa staðið í erfiðum samningaviðræðum um langt skeið og bætti við að Bandaríkin borgi ekki lausnargjald.

Brunson bað Guð um að gefa Trump „ofurmannlega visku“ og eiginkona hans bætti við bænina. Trump þakkaði þeim fyrir bænina, sneri sér að eiginkonu Brunson og spurði hana hvern hún hefði kosið í forsetakosningunum 2016.

Samband Bandaríkjanna og Tyrklands hefur beðið hnekki á undanförnum árum og má að mörgu leyti tekja það til handtöku og fangelsunar Brunson.

Ríkisstjórn Trump hefur beitt Tyrki viðskiptaþvingunum og tollum vegna Brunson og ýtti það undir efnahagsóstöðugleika þar í landi í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×