

Frá Brasilíu til Lissabon
Síðasta vígi þrælahalds
Nokkrum árum eftir síðari fund Ameríku 1492 sigldi portúgalski landkönnuðurinn Vasco da Gama fyrstur manna suður fyrir Góðrarvonarhöfða syðst í Afríku og áfram upp til Indlands. Á leiðinni heim aftur sigldi hann nálægt Brasilíu en nam þar þó ekki land. Það gerðu aðrir landar hans um 1500 og var Brasilía upp frá því portúgölsk nýlenda allar götur til 1822 og gekk á ýmsu. Þrælahald lagðist ekki af í Brasilíu fyrr en 1888 og féll þá síðasta vígi þrælahalds á vesturhveli jarðar. Landeigendur réðu lögum og lofum. Eftir síðari heimsstyrjöldina fékk Brasilía loksins að kynnast lýðræði frá 1946 til 1964 þegar herforingjar hrifsuðu til sín völdin og stjórnuðu landinu með harðri hendi til 1985. Þá komst lýðræði aftur á og stendur sú skipan enn.
Blendinn árangur
Brasilískir stjórnmálamenn og flokkar hafa ekki farið vel með umboð kjósenda. Brasilía hefur dregizt aftur úr Portúgal í efnahagslegu tilliti og langt aftur úr Argentínu í næsta nágrenni. Brasilía og Argentína stóðu jafnfætis 1990 en nú er að meðaltali fjórðungsmunur á lífskjörum í löndunum tveim Argentínu í hag. Brasilíu hefur samt farið fram að ýmsu öðru leyti. Brasilískur hvítvoðungur gat vænzt þess að lifa 11 árum skemur en argentínskur hvítvoðungur 1960, en nú er munurinn kominn niður í eitt ár, 77 ár í Argentínu og 76 í Brasilíu. Lengri ævir vitna um aukna velsæld.
Stjórnmálin eru kafli út af fyrir sig. Einn fv. forseti Brasilíu, Lula da Silva, situr nú í fangelsi vegna aðildar að spillingu. Annar fv. forseti var dæmdur frá embætti fyrir sömu sakir. Hinn þriðji, sá sem nú situr, er í rannsókn. Fáir virðast hafa hreinan skjöld. Kjósendur hugsa margir sem svo: Allt er betra en þetta. Og þá siglir inn í upplausnarástandið fv. hermaður og þingmaður frá 1991, Jair Bolsonaro heitir hann, sveiflar biblíunni og lofar að hreinsa til. Hann formælir með grófu orðalagi blökkumönnum, afkomendum þrælanna, og öðrum minnihlutahópum og mærir herforingjana og pyndingarnar sem þeir voru þekktir fyrir 1964-1985. Hann blæs á alla umhverfisvernd. Hann er kallaður brasilískur Trump og virðist nú líklegur til að ná kjöri í síðari umferð forsetakosninganna á sunnudaginn kemur. Þá getur margt enn farið úrskeiðis.
Spilling hefur afleiðingar
Hér birtist ein hættan sem stafar af stjórnmálaspillingu. Þegar Ítalar losuðu sig við gerspillta stjórnmálamenn og flokka árin eftir 1990 kusu þeir Silvio Berlusconi, auðmann af sama sauðahúsi, til að taka við taumunum með þeim árangri að Ítalía hefur í efnahagslegu tilliti dregizt aftur úr öðrum Evrópulöndum. Kaupmáttur þjóðartekna á mann á Ítalíu var svipaður 1990 og hann var í hinum þrem stærstu löndum ESB, Bretlandi, Frakklandi og Þýzkalandi, sem hefur öllum vegnað nokkuð vel. Nú er kaupmáttur þjóðartekna á mann á Ítalíu engu meiri en fyrir 20 árum líkt og í Grikklandi, fjórðungi minni en í Þýzkalandi og 10% minni en í Frakklandi. Í sumar leið gerðu ítalskir kjósendur aðra tilraun til landhreinsunar svo af hlauzt ný ríkisstjórn tveggja gerólíkra uppreisnarflokka sem virðast til alls vísir nema ESB setji þeim stólinn fyrir dyrnar. Þá getur hitnað í kolunum. Dæmi Ítalíu og Grikklands vitna um hættuna sem fylgir því að spilling festi rætur.
Tíu töpuð ár, og þó ekki
Portúgal hefur dregizt lítillega aftur úr Spáni í efnahagslegu tilliti frá því bæði löndin hrundu herforingjastjórnum af höndum sér um miðjan áttunda áratug síðustu aldar og lýðræði komst á og bæði gengu inn í ESB 1986. Kaupmáttur þjóðartekna á mann er nú ívið minni í báðum löndum en hann var 2007. Portúgal hefur þó dregið á Spán að öðru leyti. Nýfæddur Portúgali gat vænzt þess að lifa sex árum skemur en nýfæddur Spánverji 1960, en nú er munurinn kominn niður í tvö ár, 83 ár á Spáni líkt og hér heima og 81 ár í Portúgal. Lengri ævir segja stundum meira en þurrar hagtölur.
Skoðun

Tölum aðeins um einhverfu
Trausti Dagsson skrifar

Það sem sést, og það sem ekki sést
Eiríkur Ingi Magnússon skrifar

Hagræðing, aðhald og nýjar áherslur skila besta ársreikningi Kópavogsbæjar í 17 ár
Ásdís Kristjánsdóttir,Orri Hlöðversson skrifar

Gyðjur, góðgæti og gleðistundir um páskana
Jóhanna María Ægisdóttir skrifar

Eru markaðsforsendur fyrir óperu á Íslandi sterkari en margir halda?
Þóra Einarsdóttir skrifar

KSÍ og kvennaboltinn
Árni Guðmundsson skrifar

Engin heilbrigðisþjónusta án þeirra sem veita hana
Sandra B. Franks skrifar

Gervigreindin tekur yfir vinnustaðinn; 15 dæmi
Björgmundur Örn Guðmundsson skrifar

Sterkari saman: Flokkur í þjónustu þjóðar
Kristrún Frostadóttir skrifar

Magnaðar framfarir leikskólastarfs í Vík
Einar Freyr Elínarson skrifar

Skattahækkun
Bryndís Haraldsdóttir skrifar

Handtöskur og fasistar
Ásgeir K. Ólafsson skrifar

Dánaraðstoð á Bretlandseyjum í náinni framtíð
Bjarni Jónsson skrifar

„Vókið“ er dulbúin frestunarárátta:
Gabríel Dagur Valgeirsson skrifar

Vókismi gagnrýndur frá vinstri
Andri Sigurðsson skrifar

Diplómanám er ekki nóg – tími til kominn að endurskoða aðgengi fatlaðs fólks að háskólanámi
Sigurður Hólmar Jóhannesson skrifar

Styrk stjórn gefur góðan árangur
Ásthildur Sturludóttir skrifar

„Bara ef það hentar mér“
Hákon Gunnarsson skrifar

Hvar værum við án þeirra? – Um mikilvægi Pólverja á Íslandi
Svandís Edda Halldórsdóttir skrifar

Fagleg forysta skiptir öllu - Af hverju eru ekki fleiri stjórnendur og leiðtogar að kveikja á perunni?
Sigurður Ragnarsson skrifar

Borgin græna og ábyrgðin gráa
Daði Freyr Ólafsson skrifar

Stalín á ekki roð í algrímið
Halldóra Mogensen skrifar

Sorrý, Andrés
Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Er órökréttur skattafsláttur fyrir tekjuháa besta leiðin til að styðja barnafólk?
Ragna Sigurðardóttir skrifar

Gamalt vín á nýjum belgjum
Guðbjörg Sveinsdóttir skrifar

Mikilvægi skólasafna – meira en bókageymsla
Jónella Sigurjónsdóttir,Þórný Hlynsdóttir,Kristjana Mjöll Jónsdóttir Hjörvar skrifar

Aukinn stuðningur við ESB og NATO
Pawel Bartoszek skrifar

Það á að hafa afleiðingar að níðast á varnarlausu fólki
Kristján Þórður Snæbjarnarson skrifar

Börnin borga fyrir hagræðinguna í Kópavogi
Sigurbjörg Erla Egilsdóttir skrifar

Hvernig er veðrið þarna uppi?
Diljá Mist Einarsdóttir skrifar