Skoðun

Stíflugarðar á við 10 og 12 hæða blokkir

Rósbjörg Jónsdóttir skrifar
Birna Lárusdóttir, upplýsingafulltrúi Vesturverks, vakti athygli á því í grein á visir.is á dögunum að Náttúrufræðistofnun Íslands hefði lagt til friðlýsingu stórra svæða á norðanverðum Vestfjörðum í nágrenni við Drangajökul. Þetta er góð ábending sem ber að þakka Birnu fyrir. Mikilvægt er að sem flestir geri sér grein fyrir því hvað er í húfi ef áform um Hvalárvirkjun á þessu svæði ná fram að ganga.

Samkvæmt mati Skipulagsstofnunar verða áhrif Hvalárvirkjunar á landslag og víðerni verulega neikvæð. Framkvæmdirnar eiga að ná til eyðibyggða og hluta af víðáttumiklum óbyggðum fyrir vestan. Gert er ráð fyrir að reisa fimm stíflur, mynda fjögur lón, grafa skurði og göng, reisa stöðvarhús og leggja vegi. Þessu fylgir svo stórfelld efnistaka og flutningur á jarðvegi.

Þetta eru sem sagt gríðarlegar framkvæmdir. Meðal annars á að reisa stíflugarða sem verða á hæð við tíu og tólf hæða blokkir á heiði þar sem náttúran ræður nú ein ríkjum. Þannig yrði stór hluti Eyvindsfjarðarheiðar að risastóru uppistöðulóni sem myndi drekkja fjölmörgum stöðuvötnum og þurrka upp tugi fossa, þar á meðal Drynjanda sem er eitt stórbrotnasta vatnsfall Íslands.

Eðlilega var mat Skipulagsstofnunar á þessum framkvæmdum neikvætt. Það þarf mikla forherðingu til þess að ganga fram gagnvart náttúrunni með þessum hætti.

Birna lýsir í grein sinni áhyggjum yfir leikreglum lýðræðisins og nefnir rammaáætlun í því samhengi. Annaðhvort er Birna viljandi að reyna að afvegaleiða umræðuna eða veit ekki betur því þær leikreglur sem gilda um orkunýtingu á Íslandi eru nokkuð skýrar. Fyrir Birnu (og aðra sem eru ekki með þetta á hreinu) er rétt að rifja enn og aftur upp að þó landsvæði sé í nýtingarflokki rammaáætlunar þýðir það ekki að þar með sé komið framkvæmdaleyfi. Lögin gera sjónarmiðum umhverfisverndar hátt undir höfði á öllum stigum og engin ákvörðun um nýtingu felst í röðun svæðis í nýtingarflokk.

Það er hins vegar hárrétt hjá Birnu að mikilvægt er að fylgja leikreglum lýðræðisins. Um það snýst einmitt barátta Landverndar, að lögum og reglum sem gilda um orkunýtingu og náttúruvernd verði fylgt á öllum stigum og náttúrunnar gætt fyrir komandi kynslóðir. Í því samhengi má meðal annars hafa í huga að stöðuvötn og tjarnir í ákveðinni stærð ásamt fossum og nánasta umhverfi þeirra njóta sérstakrar verndar samkvæmt 61. grein náttúruverndarlaga. Áform um Hvalárvirkjun fara í bága við þau lög.




Skoðun

Sjá meira


×