Erlent

Hótanir í garð Theresu May fordæmdar

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Theresa May forsætisráðherra Bretlands.
Theresa May forsætisráðherra Bretlands. getty/Pier Marco Tacca
Þingmenn úr bæði breska Verkamannaflokknum og Íhaldsflokknum komu Theresu May forsætisráðherra til varnar í gær eftir að The Sunday Times hafði eftir ónefndum þingmanni Íhaldsflokksins að brátt myndi May fá að finna fyrir því vegna þess hvernig hún hagar útgöngumálum.

„Sú stund rennur senn upp að hnífurinn hitnar og er stungið í hana og honum snúið. Hún verður bráðlega dauð,“ var haft eftir hinum nafnlausa.

Annar þingmaður sagði að May væri að ganga inn á „drápssvæði“, sá þriðji að „morðið liggi í loftinu“ og sá fjórði að May ætti að koma með eigin snöru á fund þingflokksins.

Yvette Cooper, háttsettur þingmaður Verkamannaflokksins, sagði að leiðtogar Íhaldsflokksins ættu að bera kennsl á þá sem töluðu á þennan „ógeðfellda“ hátt.

Sarah Wollaston Íhaldsmaður sagði samflokksmönnum sínum að skammast sín. Spurði hvort þeir hefðu ekkert lært af morðinu á Jo Cox, þingmanni Verkamannaflokksins, sem öfgaþjóðernissinni myrti í júní 2016.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×