Tyrkir heita því að komast til botns í máli Khashoggi

Yfirlýsing frá tyrkneskum stjórnvöldum þar sem þessu er lofað kom í kjölfar fréttaflutnings sádí arabískra fjölmiðla um að Khashoggi hefði látist í áflogum í ræðismannsskrifstofu Sáda í Istanbul. Tyrkir höfðu áður haldið því fram að hann hafi verið myrtur þar inni og lík hans bútað niður.
„Við viljum ekki skella skuldinni á neinn á þessari stundu, en við samþykkjum ekki að breitt verði yfir þetta mál,“ sagði talsmaður ríkisstjórnarflokks Tyrklands, Omar Celik.
Þá hafa samtök tyrkneskra og arabískra fjölmiðlamanna krafist réttlætis fyrir Khashoggi og að þeir sem beri ábyrgð á dauða hans sæti viðeigandi refsingu.
„Þessu máli er ekki lokið, það er rétt að byrja. Við viljum réttlæti fyrir Jamal,“ sagði leiðtogi samtakanna, Turan Kislakci.
„Við viljum að mönnunum sem myrtu Jamal verði refsað. En við viljum ekki bara að þeim 18 sem handteknir voru verði refsað, heldur líka þeim sem fyrirskipuðu verknaðinn,“ bætti Kislakci við.
Kveður við nýjan tón hjá Sádum
Sádar höfðu, fram að gærdeginum, neitað því að Khashoggi hafi verið gert mein inni á skrifstofunni og héldu því statt og stöðugt fram að Khashoggi hafi gengið heill á húfi út úr byggingunni.
Sjá einnig: Sádar staðfesta andlát Khashoggi
Rannsakendur málsins í Tyrklandi leita enn að líkamsleifum Khashoggi, en þeir telja að lík hans hafi verið bútað niður og flutt í hlutum út úr ræðismannsskrifstofu Sáda.
Khasoggi var blaðamaður hjá Washington Post í Bandaríkjunum og var afar gagnrýninn á stjórnarhætti stjórnvalda í upprunalandi sínu, Sádi Arabíu.
Tengdar fréttir

Sádar staðfesta andlát Khashoggi
Ríkissjónvarp Sádí Arabíu hefur staðfest að blaðamaðurinn Jamal Khashoggi er látinn. Khashoggi hvarf fyrr í mánuðinum en hann sást síðast ganga inn í ræðismannsskrifstofu Sáda í Istanbúl í Tyrklandi og hafa Tyrkir haldið því fram að hann hafi verið myrtur þar inni og lík hans bútað í sundur.

Leita að líkamsleifum Khashoggi í skógi í grennd við ræðismannsskrifstofuna
Lögreglumenn í Tyrklandi sem rannsaka hvarf Sádí arabíska blaðamannsins Jamals Khashoggi leita nú að líkamsleifum hans í skógi einum í grennd við ræðismannsskrifstofu Sáda í Istanbul.

Trump segir skýringar Sáda á dauða Khashoggi trúverðugar
Rkissjónvarp Sádi-arabíu staðfesti andlát blaðamannsins Jamal Khashoggi í gær.

Hinsti pistill Khashoggi birtur
Bandaríska dagblaðið Washington Post hefur birt síðasta pistil hins týnda sádiarabíska blaðamanns Jamal Khashoggi. Grunur leikur á um að hann hafi verið myrtur á ræðismannsskrifstofu Sádí-Arabíu í Istanbúl.