Egill Halldórsson, meðeigandi Daníels, birti myndbandið fyrst á Instagram í dag. Því var síðar eytt en ótengdur aðili endurbirti það skömmu síðar á Twitter. Í myndbandinu sjást Egill og Daníel í bíl ásamt starfsmönnum fyrirtækisins. Egill beinir myndavélinni að Daníel, sem ekur bílnum, og sést hann þar halda á bjórdós í annarri hendi. Twitter-færsluna og myndbandið má sjá hér að neðan.
hey já ógeðslega töff að vera með áfengi undir stýri pic.twitter.com/5RivZSGMnN
— Hjördís Brynjars (@HjordisBrynjars) November 8, 2018
„Við erum með árshátíð tvisvar á ári og plönum skemmtilegan dag, „Wake Up Reykjavík Fun Day“, og í dag ákvað ég að vera „designated driver“, þar sem ég þarf að vakna snemma á morgun,“ segir Daníel í samtali við Vísi.
„Við fórum á fjórhjól og á leiðinni er hópurinn að sötra bjór, ég er að keyra og Egill Halldórsson félagi minn, sem er ansi virkur á samfélagsmiðlum, ákveður að henda í smá myndband og biður mig um að halda á bjórnum sínum á meðan. Ég tek aldrei sopa.“
Þá segist Daníel aðspurður hafa orðið var við umræðuna en hvorki hann né Egill eru á Twitter og hafa því ekki getað svarað fyrir ásakanir notenda á miðlinum. Þeir reka saman tvö fyrirtæki, áðurnefnt Wake Up Reykjavík, og Gorilla House, sem sér um ýmiss konar lagerlausnir fyrir netverslanir.