Enski boltinn

Segir leikmenn Man Utd fela sig fyrir Mourinho eftir tapleiki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho á æfingasvæðinu.
Jose Mourinho á æfingasvæðinu. Vísir/Getty
Nemanja Matic ræddi aðeins knattspyrnustjórann sinn Jose Mourinho í viðtali við Sky Sports fyrir leik Manchester United og Juventus í Meistaradeildinni í kvöld.

Serbneski miðjumaðurinn þekkir portúgalska stjórann vel enda hefur hann spilað fyrir hann hjá bæði Chelsea og Manchester United.

Matic segir að Jose Mourinho sé mjög tapsár en er á því að það sé gott fyrir ensku úrvalsdeildina að hann skuli starfa sem knattspyrnustjóri í ensku úrvalsdeildinni.

Manchester United er aðeins í sjöunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir ellefu leiki og eru nú níu stigum á eftir nágrönnum sínum í Manchester City. Liðin mætast um næstu helgi. United hefur nú unnið tvo leiki í röð og það er því aðeins léttara yfir mönnum á Old Trafford.

Nemanja Matic hrósar Jose Mourinho. „Hann er frábær persóna. Hann er allt annar maður utan vinnu og utan vallar,“ sagði Nemanja Matic.

„Það er mikil pressa á honum því allir búast við því að liðin hans vinni. Þegar við vinnum ekki bíða allir eftir að sjá viðbrögðin hans. Hann elskar að vinna en þegar við vinnum ekki þá felum við okkur fyrir honum á æfingasvæðinu,“ sagði Nemanja Matic í viðtalinu við Sky Sports.





„Hann er ánægður þegar við vinnum en eins og allir knattspyrnustjórar þá krefst hann þess að við gerum betur þegar við töpum. Hann reynir að finna leiðir til að breyta þeirri þróun sem fyrst,“ sagði Matic.

„Eitt er þó öruggt að hann hefur breytt miklu í ensku úrvalsdeildinni síðan að hann kom í deildina. Enska úrvalsdeildin hefur verið mun áhugaverðari með hann innanborðs,“ sagði Matic.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×