„Við vorum bara arfaslakir og Grindvíkingar tilbúnir frá fyrstu mínútu. Þeir stjórnuðu leiknum, voru mikið betri og við komumst aldrei almennilega nálægt," sagði Sverrir Þór Sverrisson þjálfari Keflavíkur eftir tap gegn nágrönnunum úr Grindavík í Geysisbikarnum í kvöld.
"Við vorum vissulega 5-6 stigum eftir á köflum en einhvern veginn var allt svo erfitt, við skutum alltof mikið af þriggja stiga skotum og hittum illa. Það voru of margir sem voru ekki tilbúnir í leikinn," bætti Sverrir við.
Það áttu ekki margir von á sigri heimamanna í kvöld, sérstaklega ekki þar sem aðeins rúmar tvær vikur eru síðan Keflavík vann 35 stiga sigur hér í Röstinni í Dominos-deildinni. Vanmátu Keflvíkingar nágranna sína?
„Ég neita að trúa því. Ég er ekki með neitt unglingalið og trúi því ekki. Það var eitthvað sem við gerðum ekki rétt í undirbúningi því við vorum ekki tilbúnir. Síðan lendum við á Grindvíkingum klárum, þeir spila vel og við áttum ekkert skilið.“
Hjálparvörn Grindavíkur á Michael Craion gekk upp í dag, hann átti í vandræðum og þriggja stiga skotin, sem Keflavík fékk þegar Grindvíkingar fóru tveir á Craion, duttu ekki niður.
„Þeir taka stóran séns, loka á Mike og gefa okkur þriggja stiga skot sem við hittum hræðilega úr. Ef við hefðum verið að hitta vel þá hefðum við sett 90 stig á þá. Þeir tóku þennan séns og það gekk upp, vel gert hjá þeim.“
Keflvíkingar eru á fljúgandi siglingu í deildinni og því gífurleg vonbrigði fyrir þá að vera dottnir út í bikarnum strax í 32-liða úrslitum.
„Þetta er hundleiðinlegt. Það kryddar tímabilið að komast sem lengst í þessu. Við lentum á erfiðum mótherja í 32-liða úrslitum og spilum illa. Það þarf ekkert að pæla meira í þessu, þetta er bara búið.“
Sverrir Þór: Við áttum ekkert skilið

Tengdar fréttir

Umfjöllun og viðtöl: Grindavík - Keflavík 80-65 │Grindavík hefndi ófaranna og sló út nágrannana
Grindavík er komið áfram í Geysisbikarnum í körfuknattleik eftir fremur óvæntan en sanngjarnan sigur á nágrönnum sínum úr Keflavík. Lokatölur 80-65 og Keflavík, sem hafði unnið fjóra leiki í röð í Dominos-deildinni, því úr leik í bikarnum.