Þokkalegasta veður víðast hvar í dag en þó hvessir af norðaustri þegar líður á kvöldið. Norðaustan hvassviðri á morgun, einna hvassast um landið vestanvert, en hægari vindur austantil.
Þessu fylgir úrkoma, snjókoma eða slydda og ætti að hlána það vel að þá nái að rigna suðaustanlands og á Austfjörðum, allavega á láglendi. Vestantil ætti að vera alveg þurrt á Suðvesturlandi en él víða um landið norðvestanvert. Dregur svo úr vindi og ofankomu um kvöldið.
Útlit fyrir norðanátt á sunnudag, strekkingsvind og él fyrir norðan, en rigning eða slydda á köflum austast en yfirleitt þurrt syðra. Af þessu má sjá að útivist til fjalla á morgun laugardag er afleit hugmynd og ekki er sunnudagurinn neitt sérstakur, einkum fyrir norðan og austan.