Stjórnarandstöðuflokkarnir leggja allir fram einhverjar breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið en Samfylkingin kynnti sínar tillögur í sautján liðum á fréttamannafundi í dag. Þar er meðal annars lagt til að auka framlög til almennra íbúða, barnabóta og vaxtabóta um tvo milljarða hvert fyrir sig og framlög til öryrkja annars vegar og eldri borgara hins vegar hækki um fjóra milljarða.
Logi Einarsson, formaður flokksins, segir markmiðið með tillögunum að auka félagslegan stöðugleika. „Koma til móts við hópa sem hafa þurft að sitja eftir í uppsveiflunni og leggja meiri áherslu á átak í húsnæðismálum. Sem er auðvitað forsenda þess að mati atvinnulífsins og verkalýðshreyfingarinnar að hér geti náðst góðir kjarasamningar,” segir Logi.

„Við viljum leggja meiri álögur á þá sem sannarlega geta borið það og verja millitekju- og lágtekjufólk sem á bara erfitt með að draga fram lífið. Við munum hins vegar líka skila auknum afgangi,” segir Logi.
Í umræðunni um frumvarpið á Alþingi í dag sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra Samfylkinguna tala eins og ekki sé verið að stórauka útgjöld á næsta ári, eða um 4,6 prósent, og hafi bara eitt svar.
„Nýjan skatt á ferðaþjónustuna, komum aftur með sykurskattinn sem mun engu breyta í neysluvenjum, ekki frekar en síðast. Hann mun hækka matvöru, hann mun hækka verðlag. Hækka skatta endalaust. Það eru einu hugmyndirnar sem menn hafa úr þessari átt,” sagði fjármálaráðherra.