Körfubolti

Fátt fær stöðvað meistarana

Anton Ingi Leifsson skrifar
Klay Thompson var öflugur í nótt.
Klay Thompson var öflugur í nótt. vísir/getty
Golden State Warriors vann sjö stiga sigur á Atlanta, 110-103, í NBA-deildinni í nótt. Houston vann tíu stiga sigur á Denver og Cleveland kláraði Charlotte auðveldlega.

Mikið jafnræði var með liðunum framan af leik og staðan í hálfleik var 52-49, Atlanta í vil. Um miðjan þriðja leikhluta tók Golden State forystuna.

Þá forystu létu þeir aldrei af hendi og mest náðu þeir fjórtán stiga forskoti í fjórða leikhlutanum. Atlanta náði að minnka muninn en meistararnir stóðu áhlaupið af sér og unnu 110-103.

Kevin Durant var afar öflugur í liði Golden State. Hann gerði 29 stig en næstur kom Klay Thompson með 24 stig. Í liði Atlanta var Taurean Prince stigahæstur með 22 stig.

Meistararnir hafa byrjað tímabilið afar vel og þeir eru með tólf sigra í fyrstu fimmtán leikjunum. Það er hins vegar meira vesen á Atlanta sem hafa einungis unnið þrjá af fyrstu fjórtán leikjum sínum.

Cleveland lenti ekki í miklum vandræðum með Charlotte Hornets, 113-89. Þeir tóku völdin strax í fyrsta leikhluta, voru 38-23 yfir eftir fyrsta leikhluta, og leiddu svo í hálfleik 67-51.

Þeir héldu vel á spöðunum í síðari hálfleik og áttu Hornets fá áhlaup sem reyndu eitthvað á Golden State. Þeir unnu svo að lokum 24 stiga sigur, 113-89.

Jordan Clarkson skoraði 24 stig fyrir Cleveland og David Nwaba bætti við átján stigum. Jeremy Lamb gerði 22 stig fyrir Charlotte.

Charlotte er með 50% árangur í fyrstu fjórtán leikjunum en Cleveland hefur byrjað hörmulega; einungis með tvo sigra í fyrstu ellefu leikjunum.

Houston vann svo tíu stiga sigur á Denver, 109-99, eftir jafnan og spennandi leik. Clint Capela gerði 24 stig fyrir Houston en stigahæstur hjá Denver var það Monte Morris með nítján stig.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×