Aung San Suu Kyi, leiðtogi Mjanmar, hefur verið svipt æðstu verðlaunum sem mannréttindasamtökin Amnesty International veita. Guardian greinir frá.
Í yfirlýsingu frá Amnesty International segir að Aung San Suu Kyi sé ekki lengur tákn vonar og vegna aðgerðarleysis hennar á meðan Róhingjar í Mjanmar eru ofsóttir og tjáningarfrelsi er skert hafi samtökin ákveðið að svipta hana verðlaununum „Sendiherra Samviskunnar“ (e. Ambassador of Conscience) sem er æðsti heiður sem Amnesty veitir.
Hlaut verðlaunin í stofufangelsi
Verðlaunin hlaut Aung San Suu Kyi árið 2009 á meðan hún dvaldi í stofufangelsi. Irene Khan, þáverandi aðalritari Amnesty International kallaði hana á þeim tíma tákn vonar og hugrekkis. Khan hrósaði henni fyrir störf hennar við vernd mannréttinda.
Kumi Naidoo, núverandi aðalritari Amnesty, skrifaði í bréfi til Aung San að hún stæði ekki lengur undir titlinum sem henni hafði verið veittur.
Naidoo vísaði í áðurnefnt aðgerðaleysi hennar á meðan að á þjóðarhreinsun á Róhingja múslimum hefur staðið yfir í Mjanmar síðan 2017.
Verðlaun Amnesty eru ekki einu verðlaunin sem Aung San Suu Kyi hefur verið svipt. Hún hefur einnig verið svipt Elie Weisel verðlaunum bandaríska helfararsafnsins sem og borgarverðlaunum fjögurra borga í Bretlandi.