Skúli Mogensen forstjóri WOW Air útilokar ekki að segja þurfi upp starfsmönnum hjá fyrirtækinu. Þetta hefur RÚV eftir Skúla að loknum starfsmannafundi WOW Air sem haldinn var í morgun. Þá segir hann fjársterka aðila skoða kaup á félaginu, að því er fram kemur á vef Fréttablaðsins.
Skúli ræddi við starfsmenn fyrirtækisins á fundinum í Katrínartúni sem hófst klukkan 10 og lauk á ellefta tímanum. „Það má vera,“ er haft eftir Skúla í frétt RÚV er hann var inntur eftir því hvort mætti vænta uppsagna eftir að Icelandair Group féll frá kaupum á WOW Air, líkt og greint var frá í morgun. Samkvæmt starfsfólki voru uppsagnir þó ekki ræddar á fundinum í Katrínartúni í morgun.
Vísir náði tali af Skúla að loknum fundi en hann vísaði á Svanhvíti Friðriksdóttur, upplýsingafulltrúa WOW Air. Vísir hefur sent henni fyrirspurn um stöðu félagsins í kjölfar frétta dagsins.
Fréttablaðið greinir jafnframt frá því að fjársterkur aðili skoði nú kaup á WOW Air en Skúli er sagður hafa greint starfsfólki frá þessu á fundinum í morgun. Í tölvupósti sem Skúli sendi starfsfólki félagsins fyrir fundinn segir að stefnt sé að því að WOW Air verði áfram sjálfstætt flugfélag. Unnið sé að því og reiknar hann með að geta fært starfsfólki WOW Air gleðifréttir í mjög náinni framtíð.
Gengi bréfa í Icelandair hefur hrapað í Kauphöllinni í morgun eftir að fréttir bárust af því að hætt hefði verið við sameiningu félagsins og WOW Air. Nú skömmu fyrir klukkan 10 var fallið um 10 prósent frá opnun markaða.
