Borgarfulltrúarnir ræddu þetta í þættinum Þingvöllum á K100 í morgun en Heiða Björg, sem var einn af forsprökkum Metoo-hreyfingarinnar á Íslandi, sagði sögu Áslaugar Thelmu Einarsdóttur, fyrrverandi forstöðumanns einstaklingssviðs Orku náttúru, dótturfyrirtækis OR, vera klassíska Metoo-sögu.

Bjarna Má Júlíussyni var sagt upp störfum sem framkvæmdastjóri ON vegna óviðeigandi hegðunar í garð starfsfólks en það var frásögn Áslaugar Thelmu sem varð til þess.
Heiða Björg sagði að viðbrögð Bjarna hefðu mögulega verið ágæt þegar hann sagðist þurfa að læra af málinu og sagði að það væri margt sem karlar hefðu gert í gegnum árin sem þeir mega ekki lengur.
Sagðist Heiða Björg standa heilshugar með Áslaugu Thelmu og taldi að lítið hefði verið gert úr hennar upplifun.
Hún sagði að sá hluti skýrslu innri endurskoðunar sem fjallaði um opinbera smánun vera að hennar mati aftan úr fornöld.

Heiða Björg sagði að hún teldi Orkuveituna vera gott fyrirtæki en bætti við að þó einhver starfsmaður hafi ekki upplifað neitt þá getur verið að einhver annar hafi gert það.
Hildur sagði að starfsfólk OR mætti einmitt sýna því skilning, þó svo að það hafi ekki upplifað neitt slæmt þá útiloki það ekki að einhver annar hafi gert það. Ef dæmin eru 10, 20 eða 30, þá sé það hreinlega of mikið að mati Hildar.
„Við megum ekki gera lítið úr upplifun kvenna,“ sagði Heiða.