Innlent

Hekla bauð hálfníræðum á tónleika Hrólfs

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Frá undirritun viljayfirlýsingarinnar.
Frá undirritun viljayfirlýsingarinnar.
„Hekla fagnaði 85 ára afmæli sínu í ár og ákvað að bjóða Reykvíkingum, þeim sem héldu upp á 85 ára afmæli sitt á árinu, á tónleika,“ segir Friðbert Friðbertsson, forstjóri Heklu. Hann vísar ásökunum um meinta spillingu tengda miðakaupunum á bug.

DV upplýsti á fimmtudag að Hekla keypti 200 miða á tónleika Hrólfs Jónssonar, fyrrverandi skrifstofustjóra eigna og atvinnuþróunar hjá Reykjavíkurborg, í Eldborgarsal Hörpu í síðasta mánuði. Voru kaupin tengd lóðaúthlutun til Heklu sem Hrólfur kom að. Engin úthlutun hefur þó átt sér stað, aðeins viljayfirlýsing auk þess sem viðræður Heklu og borgarinnar hafa siglt í strand, líkt og Fréttablaðið greindi frá í ágúst.

Friðbert segir ýmislegt hafa verið skoðað fyrir jafnaldra umboðsins sem myndi henta aldurshópnum.„Þegar við sáum síðan tónleika í Hörpu þar sem Hrólfur, KK, Jakob Frímann Magnússon og Karlakórinn Þrestir komu fram ásamt fjölda annarra tónlistarmanna var ákveðið að slá til.“

„Sérhver er nú spillingin að kaupa fyrir opnum tjöldum tónleikamiða fyrir eldri borgara Reykjavíkur sem fyrrverandi starfsmaður borgarinnar heldur, mánuðum eftir að hann hættir störfum hjá borginni og engir samningar verið gerðir við borgina um eitt né neitt utan viljayfirlýsingar um samstarf. Hér er því ekki hægt að vera að gera greiða gegn greiða, slíkt er fjarstæða,“ segir Friðbert.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×