Langvinnu sumarfríi skíðaiðkanda er lokið eftir gríðarlega snjókomu síðustu daga á Norðurlandi. Skíðasvæðið í Böggvisstaðafjalli við Dalvík var opnað í dag og stefnt er að opnun í Hlíðarfjalli á laugardagsmorgun.
Snjóframleiðsluvélarnar eru keyrðar á fullum afköstum til að gera aðstæður sem allra bestar á Akureyri fyrir komandi helgi en byssurnar framleiða um 630 þúsund rúmmetra af snjó á hverri klukkustund. Kjöraðstæður fyrir vélarnar eru um 10 stiga frost og því ættu aðstæðurnar að verða mjög góðar um næstu helgi
Guðmundur Karl Jónsson, forstöðumaður Hlíðarfjalls, segir mikilvægt að framleiða snjó til að bæta í þann náttúrulega snjó sem fyrir er á svæðinu. „Nú er bara verið að standsetja allt og gera allt klárt. Það er líka kominn kippur í árskortasöluna hjá okkur. Margir bíða eftir opnuninni,“ segir Guðmundur Karl.
Ekki var útlitið ákjósanlegt fyrir skíðaiðkendur fyrir viku því þá var afar lítið af snjó á Norðurlandi eftir góða tíð í nóvember. Nú hins vegar kætast áhugamenn um þessar vetraríþróttir allsnarlega.
„Byssurnar hjá okkur eru að afkasta nú um 633 þúsund rúmmetrum á klukkutíma. Þær hafa margsannað gildi sitt og lengja tímabilið okkar töluvert,“ segir Guðmundur Karl.
