Muhammadu Buhari, forseti Nígeríu, neitar því að hann hafi dáið og að tvífari hans hafi tekið við af honum sem Buhari sjálfur.
Orðrómur hefur gengið á samfélagsmiðlum í marga mánuði þess efnis að Buhari hafi dáið og að tvífari hans hafi komið í stað hans en forsetinn dvaldi í Bretlandi í fimm mánuði á síðasta ári þar sem hann var í meðferð við ótilgreindum sjúkdómi.
Ein tilgátan varðandi sjúkdóm Buhari var sú að hann hefði í raun látist og að tvífari hans frá Súdan, Jubril að nafni, hefði komið í stað hans í forsetaembættið. Náði þessi tilgáta miklu flugi á samfélagsmiðlum en Buhari, sem sækist eftir því að ná aftur kjöri í kosningum í febrúar, hefur nú tjáð sig um málið í fyrsta sinn.
Engar sannanir hafa verið lagðar fram um að tilgátan sé rétt en mikið hefur verið horft á alls kyns myndbönd á Youtube þar sem fullyrt er að Buhari hafi látist og Jubril komið í staðinn.
„Þetta er í alvörunni ég, ég fullvissa ykkur um það. Ég mun bráðum fagna 76 ára afmælinu mínu og ég er enn í fullu fjöri,“ sagði Buhari þar sem hann ávarpaði landa sína í Póllandi í gær þar sem hann er staddur vegna ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP24, þar sem umræðuefnið er loftslagsbreytingar.
Forseti Nígeríu neitar því að hafa dáið og að tvífari hafi komið í staðinn
Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
