Srílanska rúpían styrktist töluvert og grænar tölur voru á markaði á Srí Lanka í gær. Rekja má þetta til þess að Ranil Wickremesinghe var á ný skipaður forsætisráðherra eftir stjórnarskrárkrísu frá því hann var settur af í lok október.
Eftir að Maithripala Sirisena forseti sparkaði Wickremesinghe, meðal annars vegna fyrirhugaðs morðtilræðis sem samflokksmaður Wickremesinghe er sagður hafa verið viðriðinn, var Mahinda Rajapaksa, áður forseti, skipaður forsætisráðherra.
Þingið hafnaði Rajapaksa, samþykkti vantraust tvisvar og sérstaka traustsyfirlýsingu í garð Wickremesinghe. Því sá Sirisena sig knúinn til þess að framfylgja vilja þingsins.
Að auki þurfti Sirisena að taka þessa ákvörðun þar sem samþykkja þarf fjárlög fyrir nýársdag.
