Skoðun

Eftirförin

Guðrún Vilmundardóttir skrifar
Ég hef einu sinni veitt manneskju eftirför. Það var á þessum árstíma á menntaskólaárunum. Við vinkona mín höfðum verið á upplestrarkvöldi þar sem eftirlætis skáldkona okkar kom fram. Við vorum búnar að lesa nýútkomna bók hennar og vorum ákaflega hrifnar. Á okkur brann einhver spurning sem við þorðum þó ekki að bera upp fyrir fullum sal af fólki.

Við brugðum því á það ráð að veita skáldkonunni eftirför. Spurningunni hef ég gleymt, en hugaræsingurinn sem fylgdi eftirförinni er ógleymanlegur. Taugakerfið var allt undir. Við vorum enn að smíða spurninguna, svo við héldum bókmenntalegar ráðstefnur inni í myrkum húsasundum á leiðinni, en máttum ekki missa skáldið úr augsýn.

Eftirförin var eiginlega jafn spennandi og að spila bridds. Ég fór einu sinni á briddsnámskeið, og man ekki betur en kennaranum hafi þótt ég efnileg, en ákvað að láta af spilamennsku að námskeiði loknu. Mér kom nefnilega ekki dúr á auga næturnar eftir spilakvöldin því ég var að breyta um sögn og sjá fyrir mér ólíka möguleika í framvindu spilsins þar til dagur reis.

Eftirförinni lauk raunar nokkuð snubbótt. Skáldkonan kom að heimili sínu á Njálsgötunni og fór inn án þess að við stöllur þyrðum að stoppa hana. Öllum þessum árum seinna finnst mér að við hefðum að minnsta kosti getað boðið gott kvöld og þakkað fyrir bókina, en við vorum á ráðstefnu um spurninguna í næsta húsasundi. Og spilaferlinum er lokið.

En kannski hef ég náð að sameina áhugann á bókmenntum og briddsi með því að fá mér þægilega innivinnu sem bóka­útgefandi. Tvö lauf.




Skoðun

Sjá meira


×