Innlent

„Rass­vasa­bók­hald um tug­milljarða fram­kvæmdir“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, er ekki sáttur við vinnubrögð við samgönguáætlun.
Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, er ekki sáttur við vinnubrögð við samgönguáætlun. vísir/vilhelm
Nokkrir þingmenn stjórnarandstöðunnar gagnrýndu vinnubrögð meirihlutans á þingi við samgönguáætlun undir liðnum störf þingsins í dag.

Greint var frá breytingartillögu umhverfis- og samgöngunefndar við samgönguáætlun í fréttum í gær en í tillögunni er meðal annars kveðið á um vegtolla á stofnbrautum út úr Reykjavík og stórauknum framkvæmdum í samgöngumálum.  

Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, sagði að það væri ekki oft sem það sæjust slík vinnubrögð á Alþingi eins og virtist eiga að viðhafa varðandi samgönguáætlun.

„Hér er að fæðast í þessum töluðu orðum ný samgönguáætlun. Samgönguáætlun sem væri þá ástæða til að senda aftur til umsagnar í ljósi þeirra umfangsmiklu breytinga sem þar eru á ferðinni. En, nei það á ekki að gerast,“ sagði Þorsteinn og benti á að stefnt sé að því að ljúka umræðu og atkvæðagreiðslu um áætlunina fyrir helgi.

„Hér er verið að tala um tugmilljarða framkvæmdir á ári en ekki minnsta tilraun gerð til þess að meta þjóðhagsleg áhrif eins og vera ber til dæmis í takt við lög um opinber fjármál.“

Hann sagði minnihlutann á Alþingi vita lítið um hvað eigi að gera og hvernig.

„En mér sýnist staðan vera akkúrat svona: suðvesturhornið, höfuðborgarsvæðið, fær ekki neitt nema það borgi aukalega fyrir það með veggjöldum, og þau veggjöld á jafnframt að nota til þess að fjármagna framkvæmdir annars staðar á landinu,“ sagði Þorsteinn.

Þá bætti hann við að tillagan væri flutt af sama hópi og lagðist gegn hugmyndum um að hækka kolefnisgjöld.

 

„Og hér er skyndilega kominn listi upp á 75 milljarða sem á að fjármagna með veggjöldum á næstu árum,“ sagði Þorsteinn og hélt áfram:

„Þetta eru auðvitað ekki boðleg vinnubrögð. Þetta er rassvasahókhald um tugmilljarða framkvæmdir. Þingið á að sýna sjálfu sér þá virðingu að taka sér betri tíma til þess að móta þessar hugmyndir til enda.“


Tengdar fréttir

Vegtollar og aukin vegagerð á hraðferð í gegnum Alþingi

Veggjöld verða tekin upp á stofnbrautum út frá Reykjavík og í jarðgöngum landsins, og framkvæmdir í samgöngumálum stórauknar, samkvæmt breytingartillögu við samgönguáætlun, sem gæti hlotið samþykki Alþingis fyrir lok vikunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×