Ellert er að koma inn sem varamaður fyrir Ágúst Ólaf Ágústsson sem fór í tveggja mánaða leyfi eftir að siðanefnd flokksins hafði tekið fyrir mál hans sem snýr að ósæmilegri framkomu við konu. Ellert sat í 4. sæti á lista Samfylkingar í Reykjavík suður og hefur tæplega búist við því að til þess kæmi að hann færi rétt tæplega áttræður á þing en hvorki þau Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir né Einar Kárason, sem sátu í 2. og 3. sæti á lista, komu því ekki við að hlaupa í skarðið fyrir Ágúst Ólaf. Það dæmdist því á Ellert, sem segist ætla að messa yfir þingheimi vegna bágborinnar stöðu aldraðra.
Óttablandin virðing
Fögnuður þingmanna Samfylkingarinnar vegna komu hans er mikill. Logi Einarsson, formaður flokksins, kann sér vart læti:„Pabbi sagði mér margar sögur af erfiðum viðureignum við Ellert þegar sá fyrrnefndi stóð í marki ÍBA en sá síðarnefndi var markahrellir hjá KR. Hann og KR-ingar gerðu mínum mönnum marga skráveifuna,“ skrifar Logi á Facebook-síðu sína og bætir því við að hann hafi alltaf borið „lotningu og næstum óttablandna virðingu fyrir honum og er ánægður með að nú erum við samherjar.“
Dásemdarhlýja fylgir gamla meistaranum
Helga Vala Helgadóttir leyfir gleði sinni með komu Ellerts að streyma hindrunarlaust: „Það er eitthvað dásamlega fallegt við að Ellert sé mættur á þing, 47 árum eftir að hann kom hingað fyrst. Já, hann var fyrst kjörinn á þingið ári áður en ég fæddist og ég er amma!“ skrifar Helga Vala. „Þvílík dásemdarhlýja sem fylgir þessum meistara. Nú kætast KR ingar... eldri borgarar og ég.“Guðmundur Andri Thorsson lætur ekki sitt eftir liggja, bendir á að Ellert hafi fyrst sest á þing fyrir 47 árum, sem mun einsdæmi. „Ómetanlegur í sókn og vörn.“