Bandaríski leikarinn Kevin Spacey kemur fyrir dómara í janúar eftir að hann var ákærður fyrir að ráðast kynferðislega á táningsdreng á öldurhúsi í Massachusetts fyrir tveimur árum. Spacey sendi frá sér undarlegt myndband í gær þar sem hann varðist ásökunum í anda persónunnar sem hann lék í þáttunum „Spilaborg“.
Ákæran varðar atvik sem átti sér stað í Nantucket árið 2016. Þá er Spacey sagður hafa keypt áfengi fyrir 18 ára gamlan dreng og síðan káfað á honum. Lögaldur fyrir áfengisdrykkju í Massachusetts er 21 ár. Drengurinn er sonur Heather Unruh, fyrrverandi sjónvarpskonu, sem greindi opinberlega frá atvikinu í fyrra, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.
Áður hefur Spacey verið sakaður um kynferðislega áreitni af að minnsta kosti tveimur mönnum. Hann var í kjölfarið rekinn úr hlutverki sínu í „Spilaborg“ og kvikmynd sem hann hafði unnið að var tekin upp aftur án hans.
Spacey hefur ekki komið fram opinberlega frá því að fyrstu ásakanirnar komu fram í nóvember í fyrra. Í gær birti hann hins vegar myndband af sér í anda Frank Underwood, útsmogna stjórnmálamannsins sem hann lék í „Spilaborg“.
„Ég ætla sannarlega ekki að greiða fyrir hluti sem ég gerði ekki. Þú myndir ekki trúa því versta án sannanna, er það?“ segir leikarinn í myndbandinu.
Let Me Be Frank https://t.co/OzVGsX6Xbz
— Kevin Spacey (@KevinSpacey) December 24, 2018