„Borgarstjóri hefur alvarlega vanrækt skyldur sínar en unnið er að fjórum skýrslum til viðbótar á málum þar sem farið hefur verið gríðarlega fram úr fjárhagsáætlunum. Innri endurskoðun skilaði úttekt á skrifstofu eigna- og atvinnuþróunar árið 2015, henni fylgdu 30 ábendingar og tillögur að úrbótum en flestum þeirra var ekki sinnt,“ segir í yfirlýsingunni.
Þá segir jafnframt í yfirlýsingunni að tortryggilegt sé að tölvupóstum Hrólfs Jónssonar, fyrrverandi skrifstofustjóra eigna- og atvinnuþróunar, hafi verið eytt við starfslok hans og það gefi sterklega til kynna að reynt hafi verið að „sópa málinu undir teppið“ og slík vinnubrögð eiga ekki að líðast í íslensku samfélagi.
Styðja ákvörðun Hildar
Heimdallur lýsir einnig fullum stuðningi við ákvörðun Hildar Björnsdóttur borgarfulltrúa að víkja úr starfshópi um niðurstöður skýrslunnar geri borgarstjóri það ekki sjálfur en í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær sagði Hildur það vera óeðlilegt að hann fari sjálfur yfir málið.„Borgarstjóri ber ábyrgð á þessu máli, hann er einn þeirra. Þannig að mér finnst óeðlilegt að hann sitji í nefnd sem fer yfir niðurstöðu skýrslu Innri endurskoðunar,“ sagði Hildur.
Að lokum hvetur Heimdallur aðrar grasrótir og stjórnir í öðrum flokkum til þess að taka afstöðu í málinu burtséð frá því hvort flokkurinn sé í meiri- eða minnihluta.