Afríkusambandið hefur farið fram á það við yfirvöld í Lýðveldinu Kongó, eða Austur-Kongó, að þau fresti því að gefa út formlegar niðurstöður í forsetakosningunum sem þar fóru fram á dögunum. Kosningarnar hafa reynst afar umdeildar.
Stjórnarandstöðuframbjóðandinn Felix Tshisekedi fór með sigur af hólmi samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum en annar stjórnarandstöðuframbjóðandi, Martin Fayulu, fullyrðir að hann hafi fengið flest atkvæði.
Búist er við að formlegar niðurstöður verði gefnar út í dag, nema ríkið hlýði umleitunum Afríkusambandsins.
Martin Fayulu fullyrðir að Tshisekedi sé í raun leppur fyrir núverandi forseta, Joseph Kabila, sem þurfti að láta af embætti samkvæmt stjórnarskrá. Kabila hefur stýrt landinu í átján ár og hafði dregið það í nokkur ár að halda kosningar. Talsmenn Tshisekedi hafa hafnað ásökununum.
Samkvæmt bráðabirgðatölum fékk Tshisekedi 38,5 prósent atkvæða en Fayulu 34,7 prósent. Emmanuel Shadary, frambjóðandi ríkjandi stjórnarbandalags, hlaut 23,8 prósent atkvæða.
Stjórnarskrárdómstóll í landinu mun um helgina úrskurða hvort staðfesta eigi niðurstöðu landskjörstjórnar, telja skuli atkvæðin að nýju, eða ógilda kosningarnar og boða til nýrra.
