Keppnislið Mjölnis í blönduðum bardagaíþróttum og brasilísku jiu-jitsu voru tekin í allsherjar stöðumat af íþróttafræðideild Háskólans í Reykjavík um helgina. Mjölnir og HR hafa átt í samstarfi í rúmt ár þar sem nemendur í íþróttafræði í skólanum taka keppendur Mjölnis í líkamleg og sálræn próf.
Gunnar Nelson og Sunna Tsunami voru meðal þeirra sem ætla að nýta sér nýjustu tækni og rannsóknir innan íþróttafræðanna til að ná betri árangri í búrinu á næstunni. Bæði stefna þau á frekari bardaga á alþjóðlegum vettvangi á árinu 2019.
Á laugardaginn fóru fram mælingar á keppendum Mjölnis en þetta er í annað sinn sem keppendurnir eru teknir í slík próf. Næstu próf fara svo fram eftir þrjá mánuði og geta keppendur því fylgst með eigin framförum. Allir keppendur fá svo mat á því hvar þeir standa í samanburði við aðra í liðinu og að hverju þarf að huga til að bæta frammistöðu.
Mælingarnar eru hluti af masters verkefni Davíðs Má Sigurðssonar og fóru keppendur í nokkur próf. Fyrst fóru keppendur í próf í sálfræðilegri færni þar sem atriði eins og kvíði, andleg harka og árangurshneigð voru skoðuð.
Næst var hæð, þyngd, faðmlengd og hámarks gripstyrkur mælt áður en líkamlegi hlutinn hófst. Í líkamlega hlutanum var snerpa, stökkkraftur, hreyfanleiki, liðleiki, styrkur (armbeygjur og réttstöðulyfta) og þol (500m róður á sem skemmstum tíma) kannað.
Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir frá prófunum.






