Erlent

Matvörukeðjur vara við tómum hillum eftir Brexit

Kjartan Kjartansson skrifar
Stór hluti matvælanna sem er seldur í verslunum eins og Waitrose á Bretlandi er fluttur inn frá meginlandi Evrópu.
Stór hluti matvælanna sem er seldur í verslunum eins og Waitrose á Bretlandi er fluttur inn frá meginlandi Evrópu. Vísir/EPA
Breskar matvöruverslanir vara við því að gangi Bretar úr Evrópusambandinu án samnings ógni það matvælaöryggi landsins. Bretar séu háðir evrópskum matvörum og ómögulegt sé að byggja upp forða ferskra matvæla.

Óvissa ríkir um hvort og hvernig Bretar ganga úr Evrópusambandinu en að óbreyttu gerist það 29. mars. Breska þingið hafnaði útgöngusamningi Theresu May forsætisráðherra fyrr í þessum mánuði. Án slíks samnings gætu viðskipti og samskipti Breta við Evrópu verið í uppnámi eftir útgönguna.

M&S, Sainsbury‘s og Waitrose eru á meðal verslanakeðja sem hafa varað við mögulegum matvælaskorti ef enginn útgöngusamningur verður gerður í bréfi sem samtök smásöluverslana sendu ríkisstjórninni.

Í bréfinu er vísað til greiningar ríkisstjórnarinnar sjálfar sem bendir til þess að vöruflutningar um Ermarsund gætu dregist saman um 87% og valdið skorti á matvælum, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Um þriðjungur matvæla á Bretlandi komi frá Evrópu.

„Í mars verður ástandið meira aðkallandi þegar bresk framleiðsla er ófáanleg,“ segir í bréfinu.

Breska þingið tekur fjölda tillagna til atkvæða á morgun sem gætu breytt útgönguferlinu. Þar á meðal eru tillögur um að fresta útgöngunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×