Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, bað John McCallum, sendiherra landsins í Kína, um að segja af sér. Trudeau hefur ekki sagt hvers vegna hann greip til þessara aðgerða en afsögnin hefur verið rekin til ummæla hans um framsalsbeiðni Bandaríkjanna gagnvart Meng Wanzhou, fjármálastjóra kínverska fyrirtækisins Huawei.
McCallum hefur á undanförnum dögum gagnrýnt Bandaríkin fyrir að sækjast eftir því að Meng verði framseld og hefur jafnvel sagt framsalsbeiðnina vera gallaða. Stjórnarandstaðan í Kanada hafði gagnrýnt McCallum harðlega fyrir ummæli sín því hið opinbera á ekki að koma með neinum hætti að dómskerfinu í Kanada.
Meng er grunuð um brot á viðskiptaþvingunum gegn Íran og fjársvik í tengslum við þau brot.
Yfirvöld í Kína hafa fangelsað minnst tvo Kanadamenn og sagt þá ógna öryggi þjóðarinnar. Þá var dómur annars manns frá Kanada þyngdur. Hann hafði áður verið dæmdur til fangelsisvistar en hefur nú verið dæmdur til dauða. Aðgerðir þessar eru taldar vera hefndaraðgerðir vegna handtöku Meng í síðasta mánuði. Hún var handtekin að beiðni yfirvalda í Bandaríkjunum og standa nú yfir málaferli um hvort yfirvöld Í Kanada megi framselja hana.
Reuters ræddi við nokkra reynda embættismenn og sérfræðinga sem segja þetta í fyrsta sinn sem kanadískur sendiherra sé í raun rekinn.
Trudeau sagði á fimmtudaginn að hann ætlaði sér ekki að reka McCallum, sem hafði beðist afsökunar á ummælum sínum um framsalsbeiðnina. Á föstudaginn sagði hann hins vegar við Toronto Star að það yrði frábært fyrir Kanada ef Bandaríkin myndu fella beiðnina niður. Hvers konar samkomulag á milli Bandaríkjanna og Kína þyrfti að fela í sér að Kínverjar myndu sleppa mönnunum tveimur sem hafa verið handteknir.

