Innlent

Flug­maðurinn sem fórst milli­lenti oft í Reykja­vík

Kristján Már Unnarsson skrifar
Nýja flugbrautin í Nuuk. Fjallið Sermitsiaq, sem flugvélin rakst á, sést til hægri.
Nýja flugbrautin í Nuuk. Fjallið Sermitsiaq, sem flugvélin rakst á, sést til hægri. Isavia

Flugmaðurinn litlu Cessnu-flugvélarinnar, sem fórst við Nuuk á laugardag, var reyndur breskur ferjuflugmaður. Hann hugðist millilenda í Reykjavík á sunnudagskvöld og fljúga áfram til Skotlands á mánudag.

„Hann var einn af okkar fastakúnnum. Hann fór oft hérna í gegn, nánast vikulega,“ sagði Guðmundur Þengill Vilhelmsson, framkvæmdastjóri Íslenska flugafgreiðslufélagsins Reykjavik FBO.

„Hann var mjög reyndur ferjuflugmaður og búinn að starfa við þetta í mörg ár. Hann var þægilegur í viðmóti og vildi hafa vaðið fyrir neðan sig. Þessvegna kemur manni þetta svo mikið á óvart.“

Flugmaðurinn hugðist fljúga frá Goose Bay á Labrador til Narsarsuaq á Suður-Grænlandi. Þegar Narsarsuaq-völlur lokaðist ákvað hann að stefna til Nuuk.FlightAware

Flugmaðurinn var að ferja flugvélina frá Bandaríkjunum til Evrópu. Hann hugðist fara hefðbundna flugleið ferjuflugmanna um Grænland og Ísland, með millilendingu í Narsarsuaq og Reykjavík.

Flugvélin bar skrásetningarstafina N9009F. Hér sést flugferill hennar áður en hún rakst á fjallið.Flightradar24

Eftir flugtak frá Goose Bay á Labrador snemma að morgni laugardags áætlaði hann fljúga til Narsarsuaq á Suður-Grænlandi. Flugvöllurinn þar lokaðist hins vegar vegna slæms skyggnis. Flugmaðurinn breytti þá um stefnu og ákvað í staðinn að halda til Nuuk.

Flugvélin, sem var af gerðinni Cessna 182 Skylane, hafði áætlað lendingu í Narsarsuaq klukkan 13:10. Ferlar á flugratsjársíðum sýna flugvélina stefna í átt að Nuuk og að fjallinu Sermitsiaq, sem er á eyju norðaustan bæjarins.

Síðasta skráða flughæð vélarinnar nam 1.143 metrum en Sermitsiaq-fjall er 1.210 metrar á hæð. Tilkynnt var í gærmörgun að flak flugvélarinnar hefði fundist í hlíðum fjallsins og að flugmaðurinn hefði látist.

Fjallið Sermitsiaq. Flugvélin fórst í efstu tindum fjallsinsGetty

Að sögn Guðmundar Þengils hjá Íslenska flugafgreiðslufélaginu rak flugmaðurinnn fyrirtæki sem annaðist ferjuflug. Flaug hann meðal annars mikið fyrir flugvélaframleiðendur með nýjar flugvélar frá verksmiðjum til viðskiptavina.

Hann áætlaði að koma til Reykjavíkur á sunnudagskvöld. Segir Guðmundur að hann hafi yfirleitt gist á Hótel Natura og flogið svo héðan daginn eftir, oftast til Wick-flugvallar í Skotlandi.


Tengdar fréttir

Hafa fundið Cessna-vélina

Björgunarlið á Grænlandi hefur fundið Cessna-vélina sem leitað hefur verið að nærri Nuuk síðan á laugardag. Einn var um borð og komst hann ekki lífs af.

Leita Cessnu sem hvarf nærri Nuuk

Umfangsmikilli leit að eins hreyfils flugvél sem hvarf nærri Nuuk á Grænlandi var frestað vegna veðurs í gær. Leitin á að halda áfram í dag en flugvélin, Cessna frá Kanada, hvarf af ratsjám norður af Nuuk seinni partinn í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×