Yfirlýsingar ráðamanna Reykhólasveitar í kringum ákvörðun um veglínu Vestfjarðarvegar benda til að þeir hafi talið sig geta þvingað ríkið til mun dýrari lausnar. Þeir fengu þessi skilaboð frá samgönguráðherra:
„Í samgönguáætlun eru um 25 milljarðar að fara næstu 7-8 árin til sunnanverðra Vestfjarða. Það eru miklir fjármunir og ég sé ekki fyrir mér að það verði hægt að bæta fjármunum við þann hluta á næstu árum öðruvísi en það komi mjög illa niður á öðrum landshlutum,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson í viðtali við Stöð 2.

Enn þyngra yrði að mæta kröfum landeigenda í Teigsskógi um jarðgöng undir Hjallaháls, miðað við jarðgangaröð samgönguáætlunar, sem gerir ráð fyrir að næst í röðinni séu Fjarðarheiðargöng á Austurlandi, en þó ekki fyrr en á árunum 2029 til 2033. Sterk krafa verður frá norðanverðum Vestfjörðum um Súðavíkurgöng en eftir bæði Bolungarvíkur- og Dýrafjarðargöng gætu Vestfirðir þurft að fara enn aftar í röðina.

Niðurstaða Vegagerðarinnar er að best og fljótlegast sé að fara Teigsskógarleiðina.
„Hún er styst. Hún er umferðaröryggislega séð best og hún er hagstæðust fjárhagslega,“ segir Bergþóra Þorkelsdóttir vegamálastjóri.
„Og það er sama hvaða leið verður farin, allsstaðar þurfum við að ganga á náttúruna, þó að við reynum að gera það eins lempilega og við getum, - reynum að fara þar mildilega um og taka eins mikið tillit til allra mögulegra hluta og við getum,“ segir Bergþóra.

„Ég hef haft áhyggjur af þessu máli í mjög langan tíma, í hvaða farvegi það hefur verið.“
-Og kominn tími til að höggva á hnútinn?
„Löngu,“ svarar hann.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: