Innlent

Langreyðar lentu í hættuflokki yrði farið að ráðum Hagfræðistofnunar

Kjartan Kjartansson skrifar
Drepa þyrftu allt að 16.000 langreyðar til að ná fram aukningu á aflaverðmætum sem Hagfræðistofnun telur hægt að ná með hvalveiðum.
Drepa þyrftu allt að 16.000 langreyðar til að ná fram aukningu á aflaverðmætum sem Hagfræðistofnun telur hægt að ná með hvalveiðum. Vísir/Vilhelm
Yrði farið að ráðum í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um þjóðhagsleg áhrif hvalveiða lenti langreyðarstofninn í hættuflokki við Ísland. Náttúrufræðistofnun Íslands segir að misskilnings gæti í skýrslu Hagfræðistofnunar um stöðu hvala á válista.

Í athugasemd við skýrslu Hagfræðistofnunar sem birt er á vef Náttúrufræðistofnunar segir að í umfjöllun um búrhval megi skilja að tegundin sé ekki í hættu og veiðar á henni séu því ákjósanlegar. Sú sé þó ekki raunin heldur skorti gögn til að unnt sé að meta ástand stofnsins við Ísland með vissu. Búrhvalur sé þannig í flokknum „gögn vantar“ á svæðisbundnum válista fyrir íslensk spendýr Alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna (IUCN). Tegundin er talin í „nokkurri hættu“ á heimsvísu.

Þá bendir Náttúrufræðistofnun á að í skýrslu Hagfræðistofnunar sé fullyrt að auka megi útflutningstekjur Íslendinga með því að auka veiðar á hrefnu og langreyði. Ef stofnarnir væru 40% minni væri hægt að auka verðmæti afla Íslendinga um á annan tug milljarða króna á ári, eingöngu vegna beins afráns.

Náttúrufræðistofnun segir að langreyðarstofninn sé talinn um 40.000 dýr og í sögulegu hámarki um þessar mundir. Tegundin sé talin í „nokkurri hættu“ á heimsválista IUCN en hvorki langreyður né hrefna teljist í hættu við Ísland.

„Náttúrufræðistofnun Íslands vekur athygli á því að fækkun af þeirri stærðargráðu sem hér er nefnd, myndi breyta stöðu langreyðar á válista og tegundin yrði metin í hættuflokk við Ísland. Til að setja hlutföllin í tölulegt samhengi þá þýðir framangreint að veidd yrðu allt að 16.000 dýr,“ segir í athugasemd Náttúrfræðistofnunar.


Tengdar fréttir

Hvalveiðar draga ekki úr ferðum útlendinga og hafa ekki slæm áhrif á efnahagslífið

Gögn benda ekki til að hvalveiðar hafi slæm áhrif á íslenskt efnahagslíf og ekki er að finna marktækar vísbendingar um að hvalveiðar dragi úr ferðum útlendinga hingað. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Hagfræðistofnunar um þjóðhagsleg áhrif hvalveiða. Lagt er til að sett verði lög eða reglur um hvalaskoðun sem geti haft áhrif á hegðun hvala og truflað þá í fæðuleit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×