Wall var nú þegar úr leik á þessu tímabili eftir að gangast undir aðgerð á sama ökkla en slitna hásinin kom í ljós við læknisskoðun á mánudaginn þegar að læknir Wizards-liðsins var að skoða sýkingu í hælnum.
Óvíst er hvenær þessi 28 ára gamli leikmaður fer aftur undir hnífinn en það verður líklega í næstu viku. Wall spilaði aðeins 41 leik á síðasta tímabili og þurfti svo frá að hverfa í desember í fyrra vegna ökklameiðslanna.
Það er hætt við að þessi meiðsli hafi mikil áhrif á framhaldið á ferli Wall en leikur hans snýst mikið um hraða og hæfni hans að keyra að körfunni. Búist er við að hann verði frá í 11-15 mánuði.

Hann er ekki slæmur fyrir Wall sem fær 19,2 milljónir dollara fyrir þetta tímabil þrátt fyrir að spila bara fram í desember og á næstu leiktíð fær hann svo 38,2 milljónir dollara eða 4,6 milljarða króna þrátt fyrir að spila ekki einn einasta leik.
Wall er með samning út tímabilið 2023 og hann hækkar með hverju árinu en leikstjórnandinn fær 41,2 milljónir dollara tímaiblið 2020-2021, 44,3 milljónir eftir það og síðasta árið fær hann svo 47,3 milljónir dollara.
John Wall var valinn númer eitt í nýliðavalinu árið 2010 frá Kentucky-háskólanum en hann hefur verið í stjörnuliði NBA-deildarinnar undanfarin fimm ár.